138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

mótun efnahagsáætlunar sem tryggir velferð og stöðugleika án aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

287. mál
[18:35]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Þegar maður les tillöguna er ekki kveðið skýrt á um það hvort vísa eigi Alþjóðagjaldeyrissjóðnum úr landinu. Hér er einungis lagt til að látið verði vinna efnahagsáætlun sem tryggi velferð og félagslegan stöðugleika án aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ég styð það, ég tel skynsamlegt að búa slíka áætlun til vegna þess að ef við getum ekki unnið með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þurfum við náttúrlega að komast einhvern veginn af. Það er það sem ég er að segja, þannig að hv. þingmaður geti haft það alveg á hreinu. Reyndar höfum við sjálfstæðismenn nú þegar lagt fram tillögur um nýtt prógramm með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem er minna en það sem upp var lagt með, með minni fjárþörf sem byggir á því að tryggja aðgang íslenska ríkisins að erlendu fjármagni. Það vil ég að sé gert og þess vegna vil ég halda áfram samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. En ef Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn treystir sér ekki til að vinna með okkur Íslendingum, ef hann vill ekki gera það, ef hann ætlar sér að standa með Bretum og Hollendingum út í eitt, ef ekki er vilji til þess að fylgja eftir því prógrammi sem hann setti upp með okkur, verður svo að vera. Við það verður ekki ráðið og þá verðum við Íslendingar að taka einhvern veginn á málunum sjálf án sjóðsins og þá er nauðsynlegt að eiga eitthvert plan til um það.

Það sem ég er að segja er: Já, við skulum vinna svona áætlun, við skulum eiga hana þótt fyrr hefði verið en mín skoðun er sú að við eigum að klára þessa samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, ef hann er tilbúinn til að klára hana með okkur. Það er megininntak þess sem ég var að segja hér og vil ég biðja hv. þingmann afsökunar á því ef þetta hefur ekki verið nægjanlega skýrt þegar ég hélt ræðu mína.