138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

störf þingsins.

[13:31]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Við sjálfstæðismenn vöruðum alvarlega við þeim skattahækkunum sem gengu í gegn í þinginu í desembermánuði. Við bentum á að það væri líklegt að þær mundu reynast hagkerfinu illa þegar upp væri staðið, það mundi jafnvel verða þess valdandi að drægi úr tekjum ríkissjóðs þegar upp væri staðið.

Við ræddum sérstaklega eina tegund skattheimtu á þessum vettvangi sem snýr að vaxtagreiðslum, svokölluðum afdráttarskatti á vaxtagreiðslu sem snýr að erlendum fjármögnunar- og eignarhaldsfélögum sem hér hafa starfað. Þau fyrirtæki hafa verið á meðal hæstu skattgreiðenda í Reykjavík í það minnsta og fjögur slík fyrirtæki voru á lista yfir tíu hæstu skattgreiðendur á höfuðborgarsvæðinu. Samanlagt skiluðu þau fyrirtæki um það bil milljarði kr. í skatttekjur.

Nú stefnir í það og hefur komið fram að þessi fyrirtæki munu líklega fara úr landi vegna þeirra skattbreytinga sem hafa verið gerðar og sérstaklega hafa menn áhyggjur af því hvaða skattbreytingar séu væntanlegar því að hæstv. fjármálaráðherra þjóðarinnar hefur lýst því yfir að menn hafi ekki séð allt hvað það varðar og reyndar hafi þeir ekki séð neitt af því að það eru svo miklar breytingar fram undan. Hér er fyrirsjáanlegt tekjutap fyrir ríkissjóð vegna skattahækkana sem getur hlaupið á hundruðum jafnvel milljörðum kr. Það gerir það að verkum að þeir peningar sem áður komu inn í ríkissjóð vegna þessarar starfsemi og var hægt að nota til að reka sjúkrahús og menntakerfi, fara úr landinu vegna þessara aðgerða ríkisstjórnarinnar sem gera það að verkum að fjárlagahallinn verður meiri en ella og niðurskurðurinn verður um leið meiri. Þetta sýnir í hnotskurn, frú forseti, hvaða áhrif það getur haft þegar menn fara hugsunarlaust og undirbúningslaust í skattahækkanir án þess að gera sér grein fyrir því hvaða afleiðingar verða þar af. Það skiptir öllu máli núna, frú forseti, að við snúum af þessari braut (Forseti hringir.) og förum að vinna af skynsemi fyrir íslenska þjóðarbúið og að því hvernig við ætlum að bjarga ríkissjóði Íslands.