138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Eins og honum er fullkunnugt um og flestöllum hér inni er ég mikill áhugamaður um hátt framkvæmdastig, en það er ekki hægt að segja það um blessaða ríkisstjórnina sem gerir ekkert annað en þvælast fyrir í því öllu. Ég deili ekki skoðunum með henni.

Það er rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að vissulega hefur verið framkvæmt mikið á þessu ári í samgöngumálum. En ég vil samt minna á að það verða engar nýjar framkvæmdir boðnar út á þessu ári nema farið verði út í svokallaðar einkaframkvæmdir. Ég fagna að sjálfsögðu þessum nýja vegarkafla á Suðurlandsvegi þótt ég hefði öllu heldur viljað sjá þessar framkvæmdir fara á suðurhluta Vestfjarða þar sem er enn þá meiri þörf fyrir vegaframkvæmdir en á Suðurlandsvegi. Ég geri þó ekki lítið úr þeirri þörf í heild sinni.

Þegar við vorum að ræða fjárlögin sl. haust lögðum við sjálfstæðismenn til að Vegagerðinni yrði heimilt að nýta 4,4 milljarða við nýframkvæmdir og ný útboð á þessu ári. Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að það mundi verða mikill virðisauki fyrir samfélagið, það er gríðarlega mikilvægt, það hefði líka bjargað mjög mörgum verktökum frá gjaldþroti. Við megum heldur ekki gleyma því að mikið af þeim kostnaði sem ríkið setur í vegaframkvæmdir skilar sér til baka. Það er því gríðarlega mikilvægt að halda uppi framkvæmdastigi í landinu. Eins og við vitum öll er mikil þörf fyrir að fara í framkvæmdir. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins lagði til að farið yrði í mannaflsfrekar framkvæmdir um allt land vegna þess að annars, þegar við værum búnir að rétta úr kútnum eftir tvö, þrjú, fjögur ár og færum aftur í framkvæmdir, yrðu allir þessu litlu verktakar farnir, orðnir gjaldþrota. Þá eru hvorki verkþekkingin né tækin til staðar. Við deilum því þessari skoðun, ég og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, að það er mikilvægt að hafa hátt framkvæmdastig í vegagerð á landinu.