138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að stinga inn nokkrum orðum um atvinnuuppbyggingu í landinu sem er mikilvæg sem aldrei fyrr. Ég hvet þingmenn til að lesa þennan bækling frá Samtökum atvinnulífsins, Atvinna fyrir alla. Hann er gott innlegg í þá umræðu sem við þurfum að taka hér hvert í sínu lagi og hvert við annað. Nú um stundir held ég að það sé meira beðið um samstöðu þingheims en sundrungu, (Gripið fram í: Rétt.) sérstaklega þegar kemur að atvinnuuppbyggingu í landinu. Það er vitaskuld óþolandi að atvinnuleysi sé jafnmikið og raun ber vitni. Það er áfellisdómur yfir stjórnvöldum þessa lands að svo skuli vera (Gripið fram í: Rétt.) enda þótt afleiðingarnar af efnahagshruni fyrir hálfu öðru ári séu augljósar. En það getur ekki verið afsökun fyrir því að betur hafi ekki verið gert í þessum efnum á síðustu árum. Við þurfum að gera enn betur. Þess vegna hvet ég bæði ríkið og bæjarfélög til að draga ekki lappirnar í þessum málum, þvælast ekki fyrir áætluðum framkvæmdum eins og nýlegt dæmi frá Kópavogi sýnir okkur. (Gripið fram í: Á það við umhverfisráðherra líka?) Hér þurfum við að sækja fram, meira að segja hvað umhverfismálin varðar, til að koma eins mörgum framkvæmdum á framkvæmdastig og kostur er vegna þess að við verðum að bregðast við ákalli þjóðarinnar í atvinnumálum. Samtök atvinnulífsins segja frá því í bæklingi sínum að 11 þúsund störf hafi tapast 2008–2009 og að atvinnuleysi verði um 10% á þessu ári og því næsta. Það er óþolandi og ég hvet þingheim til að sýna nú samstöðu í þessum efnum og koma því fólki til hjálpar sem er án atvinnu, (Forseti hringir.) koma þeim verktökum til hjálpar sem eru án verka. (Gripið fram í: Farðu nú og talaðu við þingflokkinn um þetta.) Ég er alltaf að því.