138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir nánast hvert orð sem hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson sagði hér áðan, sérstaklega þar sem hann hvatti hæstv. ríkisstjórn til að lesa bæklinginn frá Samtökum atvinnulífsins til þess að gera sér grein fyrir því hvað þarf til þess að koma þessu þjóðfélagi aftur á lappirnar.

Það vill þannig til, virðulegur forseti, að við hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson sitjum saman í fjárlaganefnd og gerum okkur vel grein fyrir því sem fram undan er þar sem þarf að skera niður við næstu fjárlagagerð um 50 milljarða. Þetta er 10–15% niðurskurður. Við þekkjum öll núna hvernig ástandið er þegar búið er að skera niður um 4–8%, þannig að við sjáum alveg verkefnið sem í vændum er og gerum okkur fulla grein fyrir því að það verður að fara að spýta í lófana og skapa gjaldeyri, skapa störf til þess að koma þjóðfélaginu á lappirnar aftur. Ég hvet hv. þingmann til þess að lesa þetta a.m.k. fyrir stóran hluta af hæstv. ríkisstjórn til þess að hún geri sér grein fyrir því hvernig við eigum að reisa þetta þjóðfélag við.

Ástæða þess að ég kvaddi mér hljóðs undir þessum lið er sú að nú eru fjölskyldurnar í landinu í mjög miklum vandræðum eins og við vitum flestöll nema sumir hæstv. ráðherrar sem stinga nú hausnum í steininn eins og strúturinn. [Hlátur í þingsal.] — Í sandinn, fyrirgefið þið. Já, það liggur við að þeir séu farnir að gera það, þeir eru komnir svo neðarlega með hausinn að þeir eru komnir niður úr sandlaginu, en hvað um það. Eitt af vandamálum heimilanna er að á þessu ári hafa skattahækkanir ríkisstjórnarinnar orðið til þess að hver bensínlítri hefur hækkað um 26 krónur — bara skattahækkanir ríkisstjórnarinnar, plús það að heimsmarkaðsverð á bensíni hefur hækkað um 37 kr. á einu ári. Kostnaðaraukinn fyrir meðalfjölskyldu í landinu á meðalfólksbíl, ekki neinum stórum jeppum eða þvílíku, er orðinn 52 þús. kr., (Forseti hringir.) sem þýðir að meðalfjölskyldan í landinu þarf að hafa rúmlega 100 þús. kr. meira í tekjur til að mæta eingöngu þessum kostnaði. Því vil ég beina þeirri spurningu til hv. þm. Magnúsar Orra Schrams hvort það komi að hans mati til greina að draga úr þessum hækkunum til þess að auðvelda fjölskyldunum í landinu lífið.