138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir þessa fyrirspurn. Mig langar fyrst að taka undir það með þingmanninum að það er mikilvægt að umræðan um þessi mál verði drengileg og málefnaleg. Vil ég þá sérstaklega beina því til þingmannsins vegna þess að hún lýsti því yfir að þetta aðildarviðræðuferli væri nú komið af stað í boði Samfylkingar með dyggum stuðningi nokkurra þingmanna Vinstri grænna. Það vill þannig til að það var Alþingi Íslendinga sem samþykkti þingsályktun þar að lútandi og greiddu þingmenn úr a.m.k. fjórum stjórnmálaflokkum, ef ég man rétt, atkvæði með þessari tillögu, bara til að halda því til haga og reyna að halda þessu á málefnalegum forsendum. Það voru líka þingmenn úr sennilega fjórum flokkum sem greiddu atkvæði gegn þessari tillögu eins og við þekkjum.

Varðandi fyrirspurnir þingmannsins var sérstakur fundur boðaður í utanríkismálanefnd í gærmorgun til þess að ræða um álit framkvæmdastjórnarinnar vegna aðildarumsóknarinnar. Á þeim fundi vakti ég máls á því m.a. að það væri mikilvægt að þessi greinargerð framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins yrði þýdd á íslenska tungu og hæstv. utanríkisráðherra var boðaður á þann fund. Hann upplýsti þar að vinna við þýðingu væri þegar hafin þannig að svar mitt við þeirri spurningu er já, þetta álit verður þýtt og er reyndar þegar komið í þýðingu. Það er mikilvægt til þess að allir sem vilja kynna sér það geti gert það á sínu móðurmáli.

Ég vil líka taka það fram að það er mjög mikilvægt í þessari umræðu að átta sig á því að hér er fyrst og fremst um að ræða álit framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem byggist á þeim svörum sem íslensk stjórnvöld gáfu við þeim fyrirspurnum sem sendar voru hingað sl. haust. Útgangspunkturinn hjá framkvæmdastjórninni er að sjálfsögðu regluverk framkvæmdastjórnarinnar og Evrópusambandsins. Síðan á eftir að taka ákvörðun um hvort Ísland verður formlegt umsóknarríki. (Forseti hringir.) Það gerist væntanlega áður en mjög langt um líður af hálfu ráðherraráðsins. Þá fyrst hefjast formlegar aðildarviðræður og þá munu Íslendingar að sjálfsögðu setja fram sín meginmarkmið í þeim viðræðum.