138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það telst ekki til frétta í dag að heyra af miklum ágreiningi í herbúðum Vinstri grænna en nú ber nýrra við. Eldurinn sem þar logar stafna á milli virðist hafa tekið sér bólfestu í herbúðum Samfylkingarinnar því að hér kom hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson upp og kaghýddi ráðherra Samfylkingarinnar fyrir framan alþjóð vegna þess að hann er búinn að gefast upp á að tala yfir hæstv. ráðherrum í þingflokknum. Ég gat ekki annað séð en að hæstv. utanríkisráðherra Össuri Skarphéðinssyni og hæstv. iðnaðarráðherra Katrínu Júlíusdóttur liði ekkert sérlega vel undir mjög beittri ræðu hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar. (Gripið fram í.)

Sú málefnalega gagnrýni sem kemur úr herbúðum Samfylkingarinnar á sér því miður stoð í raunveruleikanum því að nú er eitt ár frá mjög frægum blaðamannafundi sem hæstv. ráðherrar í ríkisstjórn héldu þar sem þeir lofuðu þingi og þjóð 4.000 nýjum störfum. Hvar eru þau störf? Ég spyr eins og hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson. Það átti að skapa hvorki fleiri né færri en 2.000 ársverk með Búðarhálsvirkjun og orkufrekum iðnaði. Hvar eru þessi 2.000 störf? (Gripið fram í.) Það átti að setja hálfan milljarð í ofanflóðavarnir í Neskaupstað. Hvað varð um þær framkvæmdir? Þær voru slegnar af. Það átti að efla kvikmyndagerð í landinu og fjölga þar um 200–300 störf. Hvað varð af því? Þvert á móti var skorið þar niður.

Nú er tími til kominn að þessi ríkisstjórn fari að taka sig saman í andlitinu og fari að stunda einhverja raunverulega pólitík með framkvæmdum. Sú orðagleði og þeir blaðamannafundir sem haldnir eru með fallegum orðum duga einfaldlega ekki lengur. Þolinmæðin er ekki bara þrotin hjá almenningi og stjórnarandstöðunni, (Forseti hringir.) heldur líka hjá stjórnarliðum, eins og við sjáum hér í mjög óvæginni gagnrýni frá samfylkingarþingmanninum Sigmundi Erni Rúnarssyni. Hafi hann þökk fyrir.