138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[14:06]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög. Þetta er kynjakvótamálið margumrædda, (Gripið fram í: Stóra kynjakvótamálið.) stóra kynjakvótamálið, er kallað fram í, það er rétt. Ég hef haldið langar ræður um þetta mál og lýsi mig strax í upphafi eina ferðina enn andsnúna þeirri leið sem hér er verið er að fara, að setja í lög reglur um kynjakvóta. Ég lýsi því jafnframt yfir eina ferðina enn að ég er ekki andsnúin þeirri löggjöf vegna þess að ég sé á móti jafnrétti, þvert á móti, ég er mikill stuðningsmaður jafnréttis í viðskiptalífinu sem og annars staðar, en ég er ósammála þeirri aðferðafræði sem hér er viðhöfð. Það er einmitt sá ágreiningur sem er uppi. Ágreiningurinn snýr fyrst og síðast að því hvernig ætlum við að koma á jafnrétti. Hv. þm. Lilja Mósesdóttir talaði um nauðvörn. Ég get alveg fallist á það með þingmanninum að ástandið eins og það er núna, kynjahlutföllin í stjórnum og í hæstu lögunum í viðskiptalífinu, er ekki ásættanlegt. Nákvæmlega þess vegna hafa Samtök atvinnulífsins, Félag kvenna í atvinnurekstri og Viðskiptaráði Íslands ásamt öllum stjórnmálaflokkum skrifað undir yfirlýsingu eða samning sem hvetur fyrirtæki til að bæta úr þessu fyrir ákveðinn tíma, þann sama tíma og meiri hlutinn eða reyndar — var það ekki í þessu máli sem enginn meiri hluti var heldur bara nokkrir minni hlutar í viðskiptanefnd?

Flutningsmenn þessa frumvarps leggja til að gildistökuákvæðið sé ekki fyrr en 2013 og rökin fyrir því eru þau að gefa þessum samtökum tíma til að uppfylla þennan samning. Ég er ósammála því að setja þetta í lög og grípa þannig inn í það ferli sem farið er af stað. Það sýndi sig á fundi um daginn hjá þessum samtökum þar sem bæði karlar og konur höfðu verið hvött til að sækja, þar voru kynnt fyrirtæki sem skuldbundu sig til að uppfylla þennan samning. Ég tel að það sé vont verklag að fara í svona breytingar á lögum sem breyta því ferli sem farið er af stað hjá þessum samtökum, mér finnst að þarna vanti það að við gefum þessum þann tíma sem óskað er eftir. Ég minni á að við vinnslu þessa frumvarps komu fulltrúar frá þessum samtökum og lýstu sig andsnúna þeirri lagasetningu sem við stöndum frammi einmitt af þeirri ástæðu sem ég hef nefnt.

Ég bendi líka á að við höfum haft þessa lagasetningu hjá hinu opinbera. Hvernig er staðan hjá hinu opinbera? Hvernig standa þeir stjórnarflokkar sem tala mikið í anda pólitísks rétttrúnaðar um þessi mál og fyllast vandlætingu þegar litið er til viðskiptalífsins þar sem þeir hafa sjálfir áhrif? Er t.d. hin nýja Icesave-samninganefnd skipuð jafnt körlum sem konum? (Gripið fram í.) Nei, það er ekki svo. Þar eru fimm eða sex karlar, allir hæfir, ég geri ekki lítið úr því. En þetta er nefnd sem er á forræði ríkisstjórnarinnar og reyndar stjórnmálaflokkanna allra þannig að ég er ekki að leysa stjórnarandstöðuna undan ábyrgð í þessu.

Ég bendi á aðra nefnd sem hæstv. sjávarútvegsráðherra skipaði á haustdögum sem kölluð hefur verið sáttanefndin þótt allt sé þar reyndar í upplausn varðandi sjávarútvegsmál. Þar eru, ef mig misminnir ekki, 17 nefndarmenn, þar af eru fjórar konur. Samt óskuðu stjórnmálaflokkar eftir því að þeir tilnefndu bæði karla og konur í þessa nefnd og þetta er afraksturinn. Eigum við ekki að hafa hlutina rétt eins og í barnauppeldi? Eigum við sem berum ábyrgð á löggjöf þessa lands og eiga þeir sem bera ábyrgð á stjórn þessa lands ekki að ganga á undan með gott fordæmi? Ættum við ekki að tryggja að hið opinbera geti uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru til viðskiptalífsins núna, til einkaaðila sem fjárfesta og fórna sínum eigin fjármunum og hafa nóg að gera í augnablikinu við að reyna að bjarga verðmætum og skapa verðmæti og koma þessu ágæta landi aftur í gott horf? Ég leyfi mér að fullyrða að ýmis fyrirtæki sem þurfa að velta þessum hlutum fyrir sér einmitt um þessar mundir hafa nóg annað við tíma sinn að gera. Þess vegna finnst mér þetta vera pólitískur rétttrúnaður og íhlutun í frjálsa samninga þessara fyrirtækja og samtaka sem þarna hafa tekið sig saman um að bæta úr þessu vandamáli sem við erum öll sammála um að er ekki boðlegt að sé fyrir hendi. Auk þess þurfum við að líta í eigin barm áður en við förum af stað með þetta.

Hvað svo með allar skilanefndirnar, slitastjórnirnar og bankastjórnirnar sem eru á herðum hins opinbera? Hvernig skyldu þær vera samsettar þegar grannt er skoðað? Ég hef því miður ekki þær tölur fyrir framan mig en ég leyfi mér að fullyrða að þar séu jafnréttismálin ekki í alveg nógu góðu lagi. Ég held að í þessu máli sem í öðrum sé hvatning frekar en refsing betur til þess fallin að ná árangri. Ég held að svona lagasetning sé ekki til þess fallin að bæta úr einu eða neinu eins og dæmin, sem ég hef verið að nefna úr opinberum rekstri, sýna. Það er ekki nóg að setja lögin, það verður að tryggja að þeim sé framfylgt. Ég bendi einmitt á það sem kom fram í umræðum fyrr í vetur, einhver umsagnaraðilinn benti á að það vantaði einmitt viðlagaákvæðið í þetta frumvarp. Hvað gerist ef þessum lögum er ekki framfylgt? Ég get hvergi séð þess stað í frumvarpinu að einhverjum refsingum verði beitt ef ákvæðið er ekki uppfyllt. Ég held að við þurfum að vanda okkur betur þegar verið er að setja lög, ekki bara setja lög til að setja lög heldur verða þetta að vera lög sem farið verður eftir. Ef ekki er farið eftir þeim gerist eitthvað, en þessi lög eru ekki þannig. Ég bendi líka á að við erum með tiltölulega ný jafnréttislög þar sem heimildir til Jafnréttisstofu til að kalla eftir upplýsingum og setja alls kyns skilyrði voru sett inn í lögin í fyrsta sinn. Jafnréttisstofu jafnframt gefnar heimildir til að leggja á dagsektir ef ekki væri farið eftir lögunum. Ég tel alls enga reynslu vera komna á þessi lög. Þess vegna hefði mér þótt eðlilegt að gefa þessari löggjöf tíma þar til einhver reynsla er komin á hana. Það var ekki rætt og kom fólki á óvart. Ég sé það í gamalli ræðu sem ég flutti að fulltrúar Samtaka atvinnulífsins eða þeirra félaga sem komu á þann fund kvörtuðu yfir því að þetta hefði ekki verið undirbúið af hálfu ríkisstjórnarinnar. Þvert á móti hefði félagsmálaráðherra verið með yfirlýsingar sem gengu ekki svona langt á þeim tíma þannig að þetta kom þeim að óvörum, sérstaklega í ljósi þess að allir stjórnmálaflokkar höfðu skrifað undir þann sáttmála sem áður var nefndur.

Ég óttast að ekki verði hlustað á þessa gagnrýni mína hér eftir sem hingað til og mér finnst það vont vegna þess að við þurfum að vanda okkur, hvatt var til samstöðu í dagskrárliðnum á undan, Störfum þingsins. Ég held að það hefði farið miklu betur á því ef við þingmenn hefðum getað sameinast um að hvetja viðskiptalífið saman án þess að vera með hótanir um lagasetningu, að hvetja viðskiptalífið og taka að öllu leyti þátt í því starfi sem boðað er í þeim samningi sem allir fulltrúar stjórnmálaflokkanna gerðu við þessi samtök. Það hefði farið miklu betur á því ef við hefðum öll sett okkur töluleg markmið, jákvætt. Við hefðum getað safnað saman upplýsingum. Það er alveg rétt sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir sagði áðan, rannsóknir sýna að fyrirtækjum sem rekin eru af bæði körlum og konum vegnar betur. Auðvitað vegnar þeim betur. Það segir sig sjálft að þegar öll sjónarmið eru sett inn í jöfnuna hlýtur það að gefa betri árangur. Við þurfum að halda þessari hvatningu áfram. Jú, jú, það getur vel verið að fólk sé orðið óþolinmótt, ég er mjög óþolinmóð, en það breytir ekki því að við þurfum að gera þetta rétt. Við þurfum að vanda okkur en ekki setja af stað einhverjar popúlistalagasetningar sem virka ekki. Það er málinu ekki til framdráttar og gerir ekkert annað en skipa fólki í fylkingar í stað þess að við vinnum öll að þessu sameiginlega markmiði.

Virðulegur forseti. Ég hef svo sem sagt það sem mér býr í brjósti um þetta mál hér og áður við 2. umr. þessa máls. Ég hvet stjórnarmeirihlutann til að endurskoða afstöðu sína í þessu máli og líka þá stjórnarandstæðinga sem styðja þetta mál vegna þess að ég held að við getum gert þetta betur með öðrum og jákvæðari hætti en með lagasetningu sem ekki er einhugur um.