138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[14:22]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og kom fram hjá hv. þm. Lilju Mósesdóttur áðan hefur þetta hlutfall lækkað, við erum að fara í vitlausa átt. Það er ekki gott þannig að við ætlum að setja öryggið á oddinn. Nú setjum við þetta í lög og reynum að ná þessu. Það er búið að hvetja mjög lengi, því miður höfum við ekki náð nógu góðum árangri þar. Þetta hefur verið í áttina en sumt fer lækkandi eins og þetta hlutfall þannig að nú ætlum við að setja öryggið á oddinn.

Er það svona agalega hræðilegt þegar atvinnulífið sjálft hvetur okkur til að ná þessu markmiði? Ég átta mig ekki á því af hverju jafnréttissinnar innan Sjálfstæðisflokksins, sem ég tel að séu einhverjir, hoppa ekki á þetta mál og segja: Frábært, frábært, nú er tækifærið til að afgreiða þetta mál. Setjum þetta í lög, náum þessu markmiði, í staðinn fyrir að standa hér með einhverjar úrtöluraddir og tala um hótanir. Það hafa önnur lönd gert, (Forseti hringir.) ég bendi á Noreg.