138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[14:24]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir er á móti aðferðafræðinni sem beitt er við þetta ákvæði um kynjakvóta í hlutafélögum og einkahlutafélögum vegna þess að það þvingar fram val á konum í stjórnir þessara félaga.

Hv. þingmaður gagnrýnir á sama tíma að ekki sé að finna sektarákvæði í þessum lögum sem jafnframt þvinga þá fyrirtækin til þess að hegða sér í samræmi við ákvæðið. Ég skil ekki alveg hver andstaða hv. þingmanns er í raun og veru við þetta kynjaákvæði. Ég bendi á að hlutfall kvenna í stjórnum hlutafélaga í Noregi er með því hæsta sem gerist í heiminum, um 36%, og það hlutfall náðist (Forseti hringir.) ekki með viljayfirlýsingu og ekki heldur með samningi, heldur með kynjakvóta í lögum.