138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[14:30]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að blanda mér í þessa umræðu af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi kemur mér á óvart að hér skuli eiga sér stað umræða um að við þorum ekki að setja lög, þ.e. að við viljum gjarnan að frelsið haldi áfram og það eigi bara að beita hvatningu en ekki setja skýrari lagaramma. Ég hélt að við hefðum fengið þá reynslu að ekki veitti af að hafa umhverfið skýrara.

Ég kveð mér líka hljóðs vegna þess að ég tók þátt í því sem formaður félags- og tryggingamálanefndar að leiða til lykta í þinginu jafnréttislögin 2007. Í ræðu sem ég flutti með því máli var sérstaklega tekið fram eftir umræðu í nefndinni að ekki yrði settur kynjakvóti um fyrirtæki en það yrði gert ef árangur næðist ekki á næstu árum.

Nú er stefnt að því að við náum þessum árangri á fimm árum, eða sex árum raunar ef þetta verður 2013, og ég held að það sé bara fullreynt. Við erum búin að vera með þrjú ár, við töluðum þá um að á næstu 2–3 árum yrði að vera búinn að nást einhver marktækur árangur um fyrirtækin. Þau ár eru liðin þannig að mér finnst mjög rökrétt framhald (Forseti hringir.) að við setjum þessi lög núna og gefum þannig skýr skilaboð.