138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[14:32]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við fáum reglulega skýrslur frá Jafnréttisstofu um hvað breytist og hvað ekki. Það kom réttilega fram í máli hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur að margt hefur farið úrskeiðis, þ.e. okkur hefur ekki miðað nægilega vel, og þar er m.a. hægt að kvarta yfir opinberum aðilum. Það réttlætir ekki að við reynum ekki að setja lagaverkið skýrt og reynum að setja okkur alveg klár markmið, gefum mjög öflug skilaboð og reynum að fylgja þeim eftir.

Úrtölur og raddir eins og hér heyrast hjá hv. þingmanni eyðileggja einmitt fyrir því að jafnrétti náist. Það er alltaf verið að tala um að þetta skipti ekki meginmáli, það er gefið eftir þegar ekki er farið eftir þessum reglum. Ég ætla ekkert að verja ríkiskerfið, það þarf að taka sig verulega á í sambandi við skipanir í stjórnir og ráð. Við höfum fengið þau skilaboð á undanförnum árum frá efnahagslífi og umhverfi fyrirtækjanna þar sem karlaveldi hefur meira og minna verið stjórnað með vinargreiðum og samtryggingu. (Forseti hringir.) Ef það er einhver ástæða til að breyta þessu er það núna (Forseti hringir.) og það er einmitt það atriði sem hér er boðað.