138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[14:40]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs um þetta málefni hér í dag sem ég hef áður rætt nokkuð í ræðu, riti og á opinberum vettvangi. Margt það hefur komið fram sem ég hef farið í gegnum. Ég ætla samt sem áður að hnykkja á nokkrum atriðum og ekki síður að nota þetta tækifæri vegna þess að það er sjaldan sem við stjórnarþingmenn fáum að koma hingað og tala um eitthvað jákvætt, einhverja framþróun, einhver jákvæð skref. Allt of oft erum við í hlutverki þess sem þarf að skera niður eða koma með leiðinlegar fréttir. Hér eru hins vegar á ferð jákvæðar fréttir. (REÁ: Kallarðu þetta ekki leiðinlegar fréttir?) Nei, það geri ég ekki, hv. þingmaður. Þar erum við ósammála og ég verð að viðurkenna að ég er eiginlega bara stoltur af því að vera ósammála þér í þessu máli.

Ég ætlaði ekki síður að koma hingað til að gæta að kynjahlutföllum í þessari umræðu því að það er mikilvægt að að því sé gætt. (BJJ: Ég er á mælendaskrá.) Já, gott, mér líst vel á að okkur karlmönnum hafi fjölgað við þessa umræðu, það er vel.

Við virðumst vera búin að átta okkur á því, akademían og flestir í þingheimi, að samkvæmt niðurstöðum rannsókna skila félög sem konur koma að mun betri arðsemi, þau skila mun betri árangri. Það er marktækt samband á milli þess að hafa bæði kyn í stjórn fyrirtækis og arðsemi eigin fjár og jákvætt samband er við arðsemi heildareigna. Þetta er því jákvætt skref.

Það má spyrja okkur þingmenn: Er þá forsvaranlegt að fresta gildistöku laganna til 2013? Er við núverandi stöðu atvinnumála í landinu ekki réttast að flýta bara þessari ákvörðun og gera hana sem allra fyrst? En nei, við tókum hins vegar þá ákvörðun að bíða með gildistöku laganna til ársins 2013 að einhverju leyti til að koma til móts við sjónarmið atvinnulífsins í þessu máli sem hefur nýlega sett af stað átak til að hvetja eigendur fyrirtækja til að setja konur í stjórnir fyrirtækja. Þess vegna var ákveðið að láta lögin taka gildi árið 2013 til að gefa nú atvinnulífinu sjálfu nægan tíma til að taka þessi skref. Lögin taka því gildi árið 2013, þ.e. eftir fjóra aðalfundi.

Við sjáum á nýlegum gögnum að við, jafnréttissinnar og konurnar, erum að tapa baráttunni vegna þess að almennt séð eru konur 15% hlutfall stjórnarmanna íslenskra fyrirtækja. Í þeim fyrirtækjum sem stofnuð hafa verið eftir hrun er þetta hlutfall komið niður í 11%. Við erum sem sagt að tapa baráttunni. Það er hlutverk okkar sem hér erum, sem stöndum að löggjafarsamkundunni, að sýna vilja löggjafans og vilji löggjafans er vonandi sá að stíga fastar niður og tryggja það að konur komi að stjórnun fyrirtækja á Íslandi. Nota bene, hér erum við eingöngu að tala um lög sem taka á stærstu fyrirtækjunum, þeim sem eru mest ráðandi í atvinnulífi okkar, en gefum um leið atvinnulífinu ráðrúm til að taka til í ranni sínum.

Ég sat fund á hóteli hér í bæ fyrir nokkru þar sem þetta átak var kynnt og er það vel. Það er vel að því staðið, þetta var fjölmennur fundur jafnt karla sem kvenna og þar voru menn sammála um að auka bæri hlut kvenna í íslensku atvinnulífi. En það þarf að stíga fastar niður. Við höfum mörg margoft setið fundi þar sem karlar og konur eru hvött til að taka ákveðið skref í að fjölga konum við stjórn, hvort sem er í atvinnulífi eða í stjórnmálum, en litlar eru efndirnar. Það má kannski segja að ekki hafi verið stigin almennileg stór skref í kynjamálum á pólitíska sviðinu fyrr en kynjakvótar voru settir á þegar valið var á framboðslista stjórnmálaflokka enda sjáum við að staða kvenna í þessu húsi er miklu betri en hún áður var.

Að þessu sögðu, virðulegi forseti, vil ég segja að ég er hjartanlega sammála þeirri lagasetningu sem hér er að fara í gegnum Alþingi. Ég er stoltur af því að vera hluti af því að breyta lögum í þessu landi. Ég tel að við séum að koma til móts við óskir atvinnulífsins með því að láta lögin taka gildi eftir fjögur ár, en við erum að sýna okkur sjálfum, konum og atvinnulífinu að það er ljós við enda ganganna.