138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[14:44]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. viðskiptanefnd fyrir góða vinnu og ég þakka nefndarmönnum sérstaklega fyrir að hafa tekið tillit til þeirra óska sem ég bar fram í ræðustól um að kynjakvóti yrði settur í lög. Í stað þess að sagt væri að gætt yrði að kynjahlutföllum væri skýrt kveðið á um að það ætti að vera a.m.k. 40% af hvoru kyni í stjórnum fyrirtækja. Þau hafa valið þá leið að láta þetta ná til stærri fyrirtækja sem ég held að sé skynsamlegt, þau fyrirtæki eiga auðveldlega að geta fundið konur til að sitja í stjórnum fyrirtækja sinna. Þá vil ég stuttlega segja um þessa breytingartillögu að ég tel hana mjög til bóta, enda hefði verið mjög óheppilegt að með lögunum hefði verið dregið úr kröfunni um jöfn kynjahlutföll hjá opinberum hlutafélögum. Það var ekki markmiðið þannig að það er mjög heppilegt að þetta var gert.

Þá langar mig, frú forseti, til að taka aðeins til umræðu að hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir harmaði mjög þá aðferðafræði sem hér er verið að beita. Þó að við hv. þingmaður deilum trúnni á markaðsbúskap er ég af þeim skóla að ég vil hafa mjög styrka stjórn á markaðnum en hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir var jafnframt í þeim hópi sem taldi t.d. að fjármálakerfinu okkar þyrfti ekki að setja sérstakar skorður. (Gripið fram í.) Ég held að það sé mjög mikilvægt að löggjafinn sé óhræddur við að sýna sinn pólitíska vilja því að jafnréttismál snúast um pólitískan vilja. Hver einasti áfangi sem náðst hefur í jafnréttismálum hefur náðst vegna harðvítugrar baráttu og oft og tíðum lagasetningar, eins og t.d. varðandi kosningarrétt kvenna, aðgengi kvenna að æðri menntastofnunum, völd kvenna yfir eigin líkama með lögunum um fóstureyðingar, jafnréttislög sem hér hafa verið sett — og hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir stóð að tímamótalöggjöf um fæðingarorlof þar sem löggjafinn beinlínis tryggir með pólitískum tækjum framgöngu jafnréttis með því að gefa körlum lagalegan rétt til að vera með börnum sínum í fæðingarorlofi og skilyrða það við að annað foreldrið geti ekki tekið allt fæðingarorlofið heldur verði móðirin og faðirinn að taka a.m.k. þrjá mánuði hvort.

Ég vildi bara koma hingað, frú forseti, til að ítreka að jafnrétti er ekki eitthvað sem hægt er að tala um að maður stefni að, heldur þarf að sýna skýran pólitískan vilja.

Tillaga mín var í anda sáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Áhrif kvenna í endurreisninni verði tryggð. Því mun ríkisstjórnin beita sér fyrir því að jafna hlutfall kynjanna á öllum sviðum samfélagsins og grípa til sértækra aðgerða sé þess þörf.“

Þessi breyting á lögum um hlutafélög er sannarlega í anda stjórnarsáttmálans. Ég fagna því jafnframt að þingkarlar og þingkonur Framsóknarflokksins ætli að greiða þessu frumvarpi til laga atkvæði sitt, enda held ég að þar innan borð sé mikið af góðum jafnréttissinnum.