138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[14:51]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er svo sannarlega rétt hjá hv. þingmanni að við erum ósammála um aðferðafræðina. Varðandi lög um fjármálamarkað sem komu hér inn þá ríkja hér í landi vissulega lög um fjármálamarkað, en sá skóli markaðshyggjunnar sem hv. þingmaður tilheyrir hefur talað gegn því að setja hömlur á starfsemi fjármálafyrirtækja. (Gripið fram í.)

Varðandi EES-tilskipan höfum við lögleitt lágmarksskilyrði Evrópusambandsins samkvæmt tilskipunum á meðan mörg Evrópuríki hafa (Gripið fram í.) gengið miklu lengra. Á Íslandi skorti hinn svokallaða pólitíska vilja til þess að setja frekari skorður.

Nú ætla ég ekki að draga í efa jafnréttisást þingmanna Sjálfstæðisflokksins, ég ætla ekki að setja mig í það dómarasæti að vita hvað bærist í brjósti einstakra þingmanna. En ég sem kvenfrelsiskona er með þá pólitísku hugsjón að kvenfrelsi þurfi að ríkja í samfélagi til að það sé gott samfélag, bæði fyrir konur og karla. Það er til hagsbóta fyrir alla, enda eru karlmenn ekki á öllum sviðum í forréttindahópi, langt því frá í íslensku samfélagi, enda fylla þeir fangelsi, taka frekar líf sitt og eiga oft við erfið skilyrði að búa, sem er hluti af því karlveldi sem ríkt hefur á Íslandi.

Þessi breyting á löggjöfinni er hluti af því að breyta Íslandi í átt til betra samfélags þar sem jafnvægi ríkir í völdum kynjanna.