138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[14:55]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel fyrst rétt að taka af öll tvímæli um það að hv. þingmaður sem hér stendur telur ekki að þessi löggjöf muni koma í veg fyrir að karlar fari í fangelsi, ég er nú kannski óbrjáluð, vil ég leyfa mér að fullyrða úr þessum ræðustól. En ég tók það sem dæmi þegar ég var að ræða þá samfélagsgerð sem við búum í, sem er samfélagsgerð karlveldisins, sem er hvorki góð fyrir konur né meiri hluta karla. Þessi löggjöf er til þess fallin að víkka sjóndeildarhring þeirra sem stjórna íslenskum fyrirtækjum til að hafa áhrif á breyttar áherslur í rekstri fyrirtækja, til að hafa áhrif á hverjir verða valdir þar til að stjórna fyrirtækjum, sem mun vonandi verða í meira mæli konur.

Svo langar mig að segja um kvenfrelsi mitt og jafnrétti hv. þingmanns að þá tilheyri ég stjórnmálahreyfingunni Samfylkingunni þar sem frelsi, jafnrétti og samábyrgð er grunngildi þeirrar hreyfingar. Og frelsi er nákvæmlega í því fólgið að þú hafir tækifæri til að nýta og þroska hæfileika þína en til þess þarftu samfélag sem gerir þér það kleift. Það gerist ekki með því að einstaklingar berjist áfram á eigin afli einir og sér heldur í samhengi við samfélag sem gerir einstaklingum jafnhátt undir höfði og gerir þeim kleift að þroska hæfileika sína. Ég tel þessa löggjöf eða breytingar á henni til þess fallnar að gefa slíkt tækifæri til heilla fyrir samfélagið.