138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[15:14]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að ég ætlaði að segja já í lok fyrri ræðu minnar en varðandi það hversu hægfara eða hraðfara við eigum að vera þá er alveg ljóst að þetta skref sem við erum að taka er frekar djarft, þetta er frekar róttækt skref. Það er mun ólíklegra að við náum árangri bara með hvatningunni. Við höfum reynslu af því og fyrir stuttu var haldin ráðstefna þar sem einmitt þetta var rætt. Þessi ráðstefna var í háskólanum og ég sótti hana, virðulegi forseti. Einn af þeim sem stóðu að samkomulagi atvinnulífsins við stjórnmálaflokkana um að hvetja og reyna að ná þessu hlutfalli árið 2013 án laga var spurður: Telur þú að þetta hlutfall náist? Svarið var: Nei, líklega ekki. Einn af þeim sem stóðu að þessum samningi var frekar svartsýnn á að þetta hlutfall næðist. Ég hef því miður líka þá skoðun að ég er frekar svartsýn á að þetta náist, ef við setjum þetta ekki í lög. Þess vegna er ég tilbúin til að standa á þessari lagasetningu.

Ég trúi því að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki á móti jafnrétti. Hver er á móti jafnrétti? Það er enginn á móti jafnrétti. En það er bara misjafnt hvað við setjum það hátt á dagskrána hjá okkur í flokkunum og ég tel að þeir sem treysta sér til að stíga það skref að binda í lög að lágmarki 40% hlutfall annars kynsins í stjórnum fyrirtækja setji jafnréttismálin hærra á sína pólitísku dagskrá en þeir sem vilja einungis hvetja. (Forseti hringir.)