138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[15:16]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þarna er ég algjörlega ósammála hv. þingmanni. Það er fráleitt að halda því fram að þeir sem eru tilbúnir til þess að lögbinda þetta séu meiri jafnréttissinnar og setji þetta ofar á stefnuskrána. Þetta er mismunandi hugmyndafræði, frú forseti. (PHB: Þetta er uppgjöf.) Þetta er algjör uppgjöf, það er rétt hjá hv. þm. Pétri Blöndal, og ég ætla með leyfi forseta einmitt að lesa það sem ég náði ekki að gera áðan úr umsögn Viðskiptaráðs sem ég held að Framsóknarflokkurinn, eða alla vega sumir þingmenn hans, hafi einsett sér að vera á móti, sama hvað þaðan kemur. Það er þeirra mál. Hér er rætt um þennan ágæta samning sem þau hvöttu til að yrði látinn ná fram að ganga áður en til lagasetningar væri gripið, með leyfi forseta:

„Í ljósi þessarar almennu samstöðu atvinnulífs og þingflokka um nauðsyn þess að fjölga konum í forustusveit atvinnulífsins með þeim hætti sem lýst var að ofan kemur þessi breytingartillaga á óvart.“

Breytingartillagan sem þingmaðurinn fagnaði kemur þeim á óvart. Síðar segir, með leyfi forseta:

„Undanfari þessarar tillögu er eflaust að hluta umræða um að áðurnefnt samkomulag hafi ekki borið árangur.“

Það er nákvæmlega það sem hv. þingmaður vísaði til áðan.

„Í þeim efnum er rétt að vekja athygli nefndarmanna á að samkomulagið var undirritað fyrir aðeins nokkrum mánuðum …“

Nákvæmlega þetta hef ég verið að gagnrýna. Blekið er varla þornað á þessu samkomulagi þegar gripið er inn í það. Hv. þm. Pétur Blöndal notaði einmitt rétta orðið þegar hann kallaði fram í, þetta er uppgjöf. Núna hefur nefnilega stjórnandinn sem hv. þingmaður vísaði til, sem sagðist ekki hafa trú á því að þetta næði fram að ganga — nú hefur hann hækju. Hann segir: Við þurfum ekki að hvetja til þess og við þurfum ekki að gera þetta af því að við viljum eða teljum að þetta sé rétt. Nei, við verðum að gera þetta af því að þetta er löggjöf (Forseti hringir.) og ég þarf ekki að trúa á það. Það er rangt.