138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[15:18]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Auðvitað vilja þeir sem styðja þessa lagasetningu ganga ákveðnar fram við að ná þessum hlutföllum en þeir sem vilja ekki styðja lagasetninguna. Það liggur í augum uppi og það þarf ekki að kryfja það frekar. Auðvitað er það þannig, enda sagði hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir hér áðan að eins og þetta kom frá hæstv. ráðherra um að hvetja, það væri góð málamiðlun — (Gripið fram í.) Málamiðlun milli hverra og milli hvers? Milli þess að gera ekki neitt (REÁ: Milli mismunandi aðila.) og þess að setja í lög, þá á að hvetja. (Gripið fram í.) Virðulegur forseti, það er algjörlega ljóst að þau pólitísku öfl sem eru tilbúin til þess að setja í lög að ná hlutfallinu með lagasetningu árið 2013, (REÁ: Því miður.) 40% konur og 40% karlar a.m.k., setja jafnréttismálin á hærri stall en þeir sem vilja einungis hvetja. (REÁ: Það er rangt.) Það liggur í augum uppi og það er ekki hægt að færa rök fyrir öðru.

Þess vegna finnst mér þetta svo skrýtið — af því að fyrirtækin sjálf hafa opinberlega sagst vilja ná þessu þá finnst mér eiginlega að það ætti að fagna þessari lagasetningu ef eitthvað er. Þetta er algjörlega í anda þess sem fyrirtækin vilja sjálf. Nú skulum við því bara taka af skarið og nýta þessa glufu sem opnast af því að það eru pólitísk öfl hér inni, meiri hlutinn vill setja þetta í lög, þetta er glufa og ríkisstjórnarflokkarnir styðja það, sem skiptir talsvert miklu máli því varla næðist þetta hér í gegn að öðrum kosti, býst ég við. Við eigum að nýta þessa glufu og taka þetta skref. Ég er mjög ánægð að við skulum sýna þennan fríska andblæ og að þingið sjálft taki af skarið. (Forseti hringir.) Ég er mjög ánægð með það.