138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[15:20]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við ræðum hér mjög mikilvægt mál þegar við horfum til framtíðar, mál sem snýr að jafnrétti í íslensku samfélagi. Eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir benti á áðan hefur Framsóknarflokkurinn staðið þar í stafni á undangengnum árum og barist fyrir auknu jafnrétti á milli kynjanna.

Hvernig er staðan í dag og hvað hefur gerst frá hruni? Jú, staðreyndin er sú að í nýstofnuðum fyrirtækjum er hlutur kvenna rýrari en áður. Þegar kemur að stjórnum fjármálafyrirtækja, hvert er hlutfall kvenna í þeim? Eigum við að hlusta á tölur? 6–27%. Þetta er eftir hrun. (Gripið fram í.) Hvernig stendur á þessu? Eru íslenskar konur vitlausari en íslenskir karlmenn eða eru íslenskar konur minna menntaðar en íslenskir karlmenn? Frá árinu 1984 hafa konur verið fleiri í íslenskum háskólum en karlar, í 26 ár. Þetta er meira en aldarfjórðungur og í dag horfum við upp á að hlutfall kvenna í stjórnum fjármálafyrirtækja er 6–26%. Þetta er gríðarlegur árangur. Sumir tala fyrir því að menn skuli bara láta þetta ganga eðlilega fyrir sig, það sé búið að gera samning á milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnmálaflokkanna um að hlutfallið breytist í ekki minna en 40% karla og kvenna í fyrirtækjum sem telja meira en 50 starfsmenn. Það er samningur og hvað þýðir samningur? Ef menn skrifa undir samning ætla menn ekki að standa við hann? Jú, við skulum gefa okkur það. Hvað í ósköpunum er þá að því að Alþingi Íslendinga staðfesti þennan samning með lögum? Eða er mönnum ekki alvara með þessu samkomulagi? Jú, mönnum er alvara. Þess vegna er ekkert að því að stjórnmálaflokkar á vettvangi Alþingis skrifi undir að verði atvinnulífið ekki búið að ná þessum árangri fyrir 1. september árið 2013 muni það hafa ákveðnar afleiðingar í för með sér.

Ég skal alveg viðurkenna að hér stendur einstaklingur sem hefur skipt um skoðun í þessu máli. Ég held að ef við getum lært eitthvað af hruninu og því að við þurfum að endurmeta margt, endurmeta okkar lífsgildi, þá eru þeir tímar uppi núna. Ég segi það, horfandi til ungs fólks, sérstaklega kvenna sem eru núna í háskólanámi: Hver eru tækifæri þeirra kvenna miðað við þær tölur sem ég hef verið að lesa hér upp? Þetta er búið að hjakka í sama gamla farinu á undangengnum árum, nú þurfum við einfaldlega róttækni til þess að breyta ríkjandi ástandi og ég er reiðubúinn til þess að beita mér fyrir því.

Af því að hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir minntist aðeins á fæðingarorlofið áðan langar mig til að minna á aðdraganda þess máls. Það var lagt fram af hálfu Framsóknarflokksins með stuðningi Sjálfstæðisflokksins. Hæstv. félagsmálaráðherra Páll Pétursson lagði það mál fram eftir gríðarlegt stapp við Sjálfstæðisflokkinn á þeim árum. Ég ætla að minna á herferð sem Samband ungra sjálfstæðismanna fór í, einmitt í anda þeirrar umræðu sem hér fer fram, um að það ætti að ríkja algjört frelsi þegar kæmi að fæðingarorlofinu. Foreldrar ættu að ráða því hvernig þeir færu með sitt fæðingarorlof, ekki ætti að binda þetta við að þrír mánuðir væru í það minnsta hjá hvoru kyninu um sig heldur ættu hjónin einfaldlega að hafa sjálfdæmi um þetta.

Hver væri staðan á Íslandi í dag ef við hefðum lengt fæðingarorlofið í níu mánuði og ákveðið að binda ekki þrjá mánuði við hvort kyn? Ég fullyrði að konur tækju þetta fæðingarorlof í yfirgnæfandi hluta tilfella. Hvað hefði þá orðið um réttindi barnanna — sem var nú nálgunin í frumvarpinu — til samvista við feður sína ? Hvað hefði orðið af því tækifæri sem okkur gafst þá? Löggjafinn gekk fram fyrir skjöldu og ákvað með róttækum hætti að setja fæðingarorlofslöggjöfina undir forustu Framsóknarflokksins á sínum tíma, löggjöf sem hefur vakið athygli víða um heim. Frændur okkar á Norðurlöndunum hafa í mörg ár sagt að þeir öfundi okkur hvað mest af þeirri hugsun og framsýni sem stjórnvöld sýndu á sínum tíma með fæðingarorlofslöggjöfinni undir forustu Framsóknarflokksins, (PHB: Var Sjálfstæðisflokkurinn ekki í ríkisstjórn?) svo að því sé haldið til haga í þessari umræðu. Hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir lét að því liggja að það hefði verið Sjálfstæðisflokkurinn sem kom þessu máli í gegn á sínum tíma. (PHB: Hann var í ríkisstjórn.) Ég vil minna á að ein meginhreyfing Sjálfstæðisflokksins, Samband ungra sjálfstæðismanna, barðist með oddi og egg gegn þeirri hugmyndafræði sem við framsóknarmenn töluðum fyrir og reyndar sumir í liði Sjálfstæðisflokksins á þeim tíma.

Ekki man ég hvað hv. þm. Pétur H. Blöndal lagði til málanna þá. (REÁ: Hann var eindreginn stuðningsmaður þess.) Hann var eindreginn stuðningsmaður þess, segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, enda hefði nú þurft að segja mér annað þrisvar sinnum því að hv. þingmaður er jafnréttissinni. Þess vegna skil ég ekki að hann skuli ekki vera sammála okkur í þessu máli vegna þess að hér er verið að setja ákveðin takmörk eins og við gerðum í fæðingarorlofinu. Við horfum upp á það að mjög lítið hefur áunnist innan atvinnulífsins þegar kemur að hlut kvenna í stjórnum fyrirtækja. Þessu ætlum við að breyta núna þegar við reisum Ísland við á þeim tímum efnahagshruns sem blasa við okkur. Við ætlum að veita konum jöfn tækifæri á við karla, enda er það svo — hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir var ekki komin hér í salinn áðan — að konur hafa frá árinu 1984 verið í meiri hluta í íslenskum háskólum, í meira en aldarfjórðung. Samt er hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja, sem krefst væntanlega ákveðinnar menntunar, svo lítið sem raun ber vitni. Þetta er ástand sem við verðum að breyta. Við í Framsóknarflokknum viljum breyta þessum hlutum og reyndar hefur Framsóknarflokkurinn einn flokka sett í sín lög ákvæði um hlutföll kynjanna.

Setjum sem svo að það fari að komast skriður á þessi mál, þá getur verið að við þurfum á jafnréttislögum að halda fyrir karlmenn þegar fram í sækir, ef við höfum í huga að í 26 ár hafa konur verið í miklum meiri hluta í íslenskum háskólum. Hver eru tækifæri ungra drengja í dag ef þessi hlutföll snerust við? Mundum við sætta okkur við að karlmaður sem væri í námi ætti einungis örlitlar líkur á því að komast í stjórnir fjármálafyrirtækja í samanburði við konur? Ég segi nei. Það þarf að vera jafnræði í þessu. Kynin eru ólík og ég tel að með því að blanda þeim saman, að hafa ekki fulltrúa einungis annars kynsins við stjórn — (Gripið fram í: Vitleysa.) Vitleysa, segir einn hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem ég ætla viðkomandi vegna ekki að nafngreina hér. Það er rétt að blanda kynjunum þegar kemur að stjórnun fyrirtækja og stjórnmálum. Ég mundi ekki vilja sjá bara konur í þessum sal eða bara karlmenn, síður en svo.

Ég segi því, hafandi verið á móti kynjakvótum í Framsóknarflokknum á sínum tíma, að þegar maður sest niður og fer að velta fyrir sér hvernig þetta samfélag hefur þróast á undangengnum árum sé ljóst að þeir tímar séu runnir upp eða eigi að vera á Íslandi í dag að staða karla og kvenna eigi að vera jöfn, hvort sem er á Alþingi, í sveitarstjórnum eða í stjórnum stærstu fyrirtækja landsins. Til þess að ná því markmiði verðum við ósköp einfaldlega að vera djörf í þeim efnum. Þeir sem eru á móti slíku skulu þá hugsa til dætra sinna og jafnvel barnabarna og þeirra tækifæra sem þeim hafa boðist í samanburði við karlmenn, þrátt fyrir að hafa jafnvel náð sér í meiri menntun en íslenskir karlmenn. Við þurfum að stíga ákveðið skref og ég skal með stolti viðurkenna það hér að ég hef breytt um skoðun í þessum efnum. Ég tel nauðsynlegt í dag að fá þetta jafnrétti fram.

Ég ber virðingu fyrir þeim samningum sem gerðir voru á milli aðila vinnumarkaðarins og það hvarflar ekki að mér annað en að þeir samningar verði efndir. Hvað er þá að því að setja lög í anda þeirra samninga hér á vettvangi þingsins? Hvernig í ósköpunum er hægt að færa rök fyrir því að það sé rangt af Alþingi Íslendinga að setja löggjöf í anda þeirra samninga sem nú eru í gildi á vinnumarkaðnum? Gefa menn sér að þessir samningar muni ekki halda? Ég vona ekki. Við skulum gefa okkur að þeir haldi. Hvað er þá að því að Alþingi Íslendinga sýni í verki að við viljum stuðla að auknu jafnrétti í samfélaginu, sérstaklega núna þegar við erum að „byggja upp“, innan gæsalappa, þetta nýja Ísland og horfandi á þá þróun á þessu ári að nær eingöngu karlmenn skipi stjórnir íslenskra fjármálafyrirtækja? (REÁ: Í eigu ríkisins.) Í eigu ríkisins, bendir hv. þingmaður réttilega á. Það er reyndar mjög erfitt að skilja málflutning ríkisstjórnarinnar á annan veg en þann að hún vilji halda í heiðri jafnrétti en það hefur ekki sýnt sig í orði miðað við þær tilnefningar sem hafa átt sér stað í stjórnir ríkisfyrirtækja að undanförnu, sem ríkisstjórnin ber náttúrlega ábyrgð á, þar sem hallar verulega á hlut kynjanna.

Hafandi sagt þetta vil ég fagna því að eindreginn stuðningur sé við það markmið okkar að jafna hlut kynjanna, líka á sviði viðskiptalífsins. Þeir sjálfstæðismenn sem hér hafa talað hafa lýst því yfir. Við erum hins vegar ósammála um leiðirnar sem við viljum fara að þessu marki. Mér er þó alveg fyrirmunað að skilja, fyrst það liggur fyrir samningur sem menn ætla að efna, að Alþingi Íslendinga staðfesti ekki þau markmið sem í þeim samningi felast og að við afgreiðum þetta mál fljótt og vel. Fjórir aðalfundir eru fram undan í íslensku atvinnulífi til þess að leiðrétta þennan mismun og ég held að þessi tími, þar sem menn munu í fjögur skipti kjósa í stjórnir þessara fyrirtækja, sé alveg nægjanlega rúmur til þess að jafna hlut kynjanna í stjórnun fyrirtækja.

Mér finnst því einboðið að við samþykkjum þetta frumvarp eins og það lítur út. Við framsóknarmenn studdum þessar breytingartillögur við 2. umr. undir forustu Eyglóar Harðardóttur, sem á sæti í viðskiptanefnd fyrir hönd flokksins. Það er keppikefli okkar að í framtíðinni búi allir við sömu tækifæri, sama hvort um konur er að ræða eða karla. Sagan hefur hins vegar sýnt okkur að innan atvinnulífsins hafa konur átt mjög erfitt uppdráttar. Þrátt fyrir að hafa lagt á sig gríðarlega mikla vinnu, m.a. með því að afla sér miklu meiri menntunar en íslenskir karlmenn, hafa þær ekki náð árangri innan viðskiptalífsins. Það er náttúrlega miður og því þurfum við að breyta.

Í könnunum, eða þar sem menn hafa gert úttekt á mismunandi mynstri hjá kynjunum innan fyrirtækja, hefur m.a. komið í ljós að þar sem hlutur kynjanna er sem jafnastur og þar sem konur eru hafi fyrirtæki lengri líftíma og meiri arðsemi. Þetta hafa rannsóknir sýnt og þeim hefur svo sem ekki verið hnekkt. Við ákvarðanatöku þar sem hlutur kynjanna er jafn er tekið tillit til fleiri þátta en þar sem einungis karlmenn eru við stýrið. Ég sé því ekkert annað en tækifæri í þessari löggjöf. Ég held að menn þurfi ekki að vera hræddir við að hlutur karla og kvenna verði ekki ójafnari en 40:60 í prósentum talið. Við þurfum ekki að hræðast það. Það vill svo til að í þessu landi býr urmull af vel menntuðum konum og körlum sem eru reiðubúin til þess að leggja mikið á sig við uppbyggingu samfélagsins. Það er m.a. gert í gegnum stjórnir stærstu fyrirtækja landsins og ég er með mjög góða samvisku þegar kemur að því að greiða atkvæði um þetta mál. Í raun og veru er ég stoltur af því að við skulum ná því sem næst þverpólitískri sátt — kannski fyrir utan Sjálfstæðisflokkinn — um að þetta ákvæði fari í gegn, rétt eins og aðilar vinnumarkaðarins hafa komist að samkomulagi um. Fyrst að sá samningur er í gildi og er undirskrifaður er ekkert að því að við á Alþingi Íslendinga samþykkjum löggjöf í takt við þá samninga sem nú eru í gildi á milli aðila vinnumarkaðarins. Ég tel að Alþingi eigi, ef eitthvað er, frekar að ganga á undan með góðu fordæmi.