138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[15:40]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að segja að mér finnst það ekki of langt seilst að biðja Framsóknarflokkinn að taka ábyrgð á því að þetta hafi ekki gengið í ríkisrekstrinum vegna þess að Framsóknarflokknum var það ekkert um megn að taka allan heiðurinn af fæðingarorlofslögunum rétt áðan, þannig (BJJ: Þá vorum við í ríkisstjórn.) að ég held að þetta gangi báða vegu. (BJJ: Þetta er misskilningur.) Aðdragandi þeirra laga, svo að ég endurtaki það sem ég sagði áðan, pólitískur aðdragandi þeirra laga og það hvernig þau lög komust í framkvæmd, hv. þingmaður veit alveg jafn vel og ég að það þurfti pólitíska forustu Sjálfstæðisflokksins innan ríkisstjórnarinnar sem fór með fjármálaráðuneytið á þeim tíma til þess. Ef fjármálaráðuneytið hefði ekki komið að því máli hefði þetta aldrei náð fram að ganga, ég leyfi mér að fullyrða það.

Ég kom að þessu sjálf sem aðstoðarmaður ráðherra. (Forseti hringir.) Hver nefndin á fætur annarri hafði reynt að lappa upp á þessi lög. Við tókum af skarið í fjármálaráðuneytinu (BJJ: Nei.) og náðum góðu samstarfi milli flokkanna um að taka þessi mál og — það var búið til nýtt hugtak — afflækja þau, taka þau úr þeim þremur ráðuneytum sem þau tilheyrðu, taka alla þessa löggjöf og setja hana undir einn hatt og færa hana til félagsmálaráðuneytisins sem í þetta ... (BJJ: Uss.) Ég er ekki að segja að Sjálfstæðisflokkurinn hafi gert það — ég bið þingmanninn um að hætta að sýna þessa vandlætingu — ég er að lýsa því hvernig það var ákveðið þá innan ríkisstjórnar að færa þetta mál yfir í félagsmálaráðuneytið sem fór með jafnréttismálin. Heilbrigðisráðherra, fjármálaráðherra og félagsmálaráðherra höfðu allir aðkomu að þessum málum. Fjármálaráðherra hafði forustu um að taka þetta mál úr þessu ferli og setja það í það ferli sem það varð á endanum í. Síðan getum við bitist um hvernig pólitíkin var á þinginu og í framhaldinu af því. En þetta var gott samstarf og ég leyfi mér að fullyrða (Forseti hringir.) að forustan í aðdraganda þessa og tilurðin var komin frá Sjálfstæðisflokknum.