138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[16:04]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er hjartanlega sammála því að það er óásættanlegt hve fáar konur sitja í stjórnum og ráðum, hve fáar konur eru forstjórar og hve fáar konur eru framkvæmdastjórar stórra fyrirtækja. Ég get heils hugar tekið undir það. Ég held hins vegar að löggjöf í þá veru breyti engu. Það er bara skoðun mín, frú forseti, að löggjöfin muni ekki breyta miklu í þá veru.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson sakar mig um að hafa sagt að hann og fleiri þingmenn væru með tvískinnung í þessum málflutningi. Svo var ekki. Ég sagði að það væri tvískinnungur hjá löggjafanum að setja lög á einkafyrirtæki um hvernig þau ættu að haga sér í stjórnum og ráðum en gera ekkert til þess að hið sama nái fram að ganga í þeim fyrirtækjum sem ríkið á sjálft og skipar fólk í. Það er tvískinnungur (Forseti hringir.) að þar skuli ekki vera jafn kynjakvóti eins og hv. þingmaður óskar eftir.