138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[16:05]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að við þurfum að koma á fót einhverri þýðingamiðstöð í þinginu. Að hverju er þingmaðurinn að ýja? Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir skildi ræðu hv. þingmanns með allt öðrum hætti en hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir sjálf hélt fram.

Hv. þingmaður nefndi það sérstaklega áðan að hv. þm. Birkir Jón Jónsson hefði ekki látið sig jafnréttismál mikið varða hér í umræðunni upp á síðkastið og í framhaldinu talaði hún síðan um tvískinnung. Ég sit ekki undir því að vera ekki talinn jafnréttissinni og að ég hafi ekki látið mig þau mál varða. Þvert á móti hef ég gert þá játningu hér að ég hafi m.a. skipt um skoðun í þessu máli og ég skammast mín bara ekkert fyrir það.

Ég held að Sjálfstæðisflokkurinn mætti líka aðeins fara að hugsa sinn gang því að fjöldi fólks í Sjálfstæðisflokknum styður þann málflutning sem við höfum haft í frammi um að óásættanlegt hlutskipti kvenna í íslensku samfélagi blasi við okkur í dag og við ættum að láta þau mál okkur varða á vettvangi þingsins en ekki láta þau óátalin. (Forseti hringir.)