138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[16:10]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er því ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki tilbúinn til að leita allra leiða til að jafna hlut kynjanna. (PHB: Það þarf …) Ég get ekki heyrt betur á hv. þingmanni — (PHB: Það er ég.) Já, ég hlakka til að heyra þína ræðu, hv. þm. Pétur Blöndal, ef þú ert á annarri skoðun en hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir. En ég gat ekki betur heyrt á þingmanninum sem talaði á undan mér en að hún væri ekki tilbúin til að leita allra leiða til að bæta hlut kvenna í stjórnum stærri fyrirtækja hér á landi.

Hvað segir þá þingmaðurinn við þeirri stöðu sem við horfum fram á að er í dag, að hlutur kvenna í stjórnum þeirra fyrirtækja sem eru stofnuð eftir hrun fer minnkandi ef borið er saman við heildartöluna? Við erum að tapa í baráttunni, úr 15% niður í 11%. Hlutur kvenna í stjórnum fyrirtækja á Íslandi er að minnka. Hvað eigum við að gera í því?

Þess vegna tel ég rétt að við horfum til lagasetningar árið 2013 eftir að við erum búin að leyfa atvinnulífinu að rækta hlutverk sitt.