138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[16:31]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Það stendur hérna í bæklingnum Atvinna fyrir alla frá Samtökum atvinnulífsins að rannsóknir sýna, með leyfi forseta:

„Rannsókn fyrirtækisins“ — það er verið að vísa til fyrirtækisins Creditinfo — „sýnir jafnframt að fyrirtæki sem stofnuð eru af báðum kynjum eru líklegust til að lifa og blandaðar stjórnir karla og kenna hafa reynst best“.

Þetta eru rannsóknir sem eru ekki bara staðfestar á Íslandi heldur á heimsvísu. Síðan spyr hv. þingmaður: Ef þetta er til hagsbóta fyrir fyrirtækin, af hverju gera þau þetta bara ekki? Góð spurning, af hverju gera þau þetta bara ekki? Við getum líka spurt þeirrar spurningar: Hver er ástæðan fyrir því að fólk reykir? Það er ekki til hagsbóta fyrir viðkomandi, það er margbúið að sýna fram á að það dregur úr lífslíkum og fólk fær alls konar sjúkdóma. Það var líka svona á sínum tíma þegar við vorum að taka upp bílbeltin — það hefur nú margsýnt sig að bílbelti bjarga mannslífum — og við settum lög um að menn þyrftu að vera með bílbelti. Ég man eftir því að þá var mjög skemmtileg frétt með Ómari Ragnarssyni þar sem hann var að sýna ýmsum sem höfðu engan áhuga á að setja á sig bílbelti, þó að það mundi bjarga lífi þeirra ef þeir lentu í árekstri, hversu fljótir viðkomandi einstaklingar væru að setja á sig þetta blessaða belti, þetta tæki bara nokkrar sekúndur og fólk þyrfti ekki að hugsa um þetta, ef menn gerðu þetta fimm sinnum hættu þeir að hugsa um þetta næst þegar þeir settust í bílinn. En samt sem áður þurfti Alþingi að setja lög um þetta. Við höfum líka sett lög t.d. um það að að fólk tali ekki í síma í bílnum án þess að vera með ákveðin heyrnartól. Við höfum sett lög um margvíslega hluti þrátt fyrir að við hefðum getað sýnt fram á með fjölda mörgum rannsóknum að það væri til hagsbóta fyrir viðkomandi ef þeir gerðu þetta bara sjálfir. En þeir hafa ekki gert það. Alþingi hefur því metið það svo að það sé til hagsbóta fyrir viðkomandi einstakling, til hagsbóta fyrir viðkomandi fyrirtækjarekstur og til hagsbóta fyrir samfélagsheildina að setja lög um það. Það er nákvæmlega það sem við erum að gera hér.