138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[16:35]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Þar sem ég hef tekið nokkrum sinnum til máls í þessari umræðu í andsvörum held ég að það ætti að liggja fyrir hver skoðun mín er í þessu máli, að ég er mjög fylgjandi því og sérstaklega hvað varðar kynjahlutföllin. Það vill kannski gleymast í umræðunni að við erum náttúrlega að ræða fleira í frumvarpinu, þ.e. eignarhald og starfandi stjórnarformenn, og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefur barist lengi fyrir því að takmarka það sem starfandi stjórnarformenn geta gert en hefur kannski ekki fengið mikla athygli fyrir einmitt þá lagabreytingu, en við virðumst nú flest vera sammála um það.

Hins vegar hafa komið fram hjá nokkrum ræðumönnum áhyggjur af því hvernig jafnréttislögum er framfylgt og lögum um opinber hlutafélög hvað varðar jafnrétti kynjanna. Ég óskaði sérstaklega eftir því að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra Gylfi Magnússon kæmi í salinn og svaraði fyrir ríkisstjórnina, því að hér hafa verið nefnd dæmi þar sem ríkisstjórnin eða framkvæmdarvaldið hefur ekki staðið sig og sérstaklega hvað varðar fjármálafyrirtækin. Hér hafa verið að nefndar skilanefndirnar, slitastjórnirnar og stjórnir bankanna. Ég mundi gjarnan vilja fá að heyra frá ráðherranum til hvaða aðgerða hann telur sig geta gripið til að tryggja betur að lögum sé framfylgt í landinu, að það sé í raun verið að vinna að jafnrétti kynjanna, bæði hjá hinu opinbera og hjá hlutafélögum. Með því vil ég á engan hátt að það skiljist sem svo að ég sé að taka undir þann málflutning að vegna þess að framkvæmd laga sem við erum þegar búin að setja er ekki alveg eins og við höfum viljað sjá fyrir okkur, eigum við ekki að setja lög um önnur fyrirtæki eða aðra þætti samfélagsins sem við viljum að fari í sömu átt.

Ég er hér með lista yfir hlutafélög E-hluta ríkisreiknings, hlutafélög og sameignarfélög sem eru að hálfu eða meira í eigu ríkissjóðs. Þegar ég renni yfir þennan lista er staðan alveg ágæt, þar er meira og minna búið að tryggja jafnan hlut kynjanna. Ég rek að vísu augun í að rannsókna- á háskólanet Íslands virðist ekki alveg standa sig nógu vel þar sem er bara ein kona, en hins vegar virðast fyrirtæki að flestu leyti standa sig nokkuð vel. Við virðumst eiga í nokkrum vandræðum með skilgreininguna á því hvað við eigum að gera við fyrirtæki sem eru 50–100% í eigu ríkissjóðs eða ef þau eru dótturfélög, ef þau eru komin í einhvers konar eignaumsýslufélög hjá ríkinu, þ.e. í eigu fyrirtækja í eigu ríkisins, hvernig við eigum nákvæmlega að framfylgja þessum lögum. Ég mundi gjarnan vilja heyra frá ráðherranum hvernig hann sér fyrir sér að hægt sé að tryggja þetta betur og til hvaða aðgerða hann ætlar að grípa.

Síðan verð ég að segja að hér hefur líka verið nefnt nokkrum sinnum að þetta sé íþyngjandi af því að þarna sé verið að tala um eignarréttarákvæðið. Ég get bara ekki séð að það sé íþyngjandi að við reynum að tryggja það að helmingur Íslendinga komi að því að stjórna atvinnulífinu, komi að því að taka þátt í að byggja samfélag okkar aftur upp, komi að því að byggja upp nýtt samfélag. (BJJ: Hárrétt.) Ef það þýðir að við séum þá að skerða hið margumtalaða viðskiptafrelsi, verður bara að hafa það. Við höfum þegar upplifað það að lesa tillögur frá Viðskiptaráði Íslands sem bendir á að það hafi oft verið þannig að fyrrum ríkisstjórnir, sem m.a. Framsóknarflokkurinn átti aðild að, hafi tekið tillögur upp hráar í lagafrumvörp og þeir hrósuðu sér meira að segja af því. Ég held, þegar við horfum til baka, að við eigum að læra af því, t.d. mörgum þeim athugasemdum sem hafa komið frá Viðskiptaráði Íslands sem var tiltölulega neikvætt gagnvart þessari breytingu að þeir höfðu bara ekki rétt fyrir sér, mjög margt sem þeir hafa bent á hefur reynst vera rangt.

Við ætlum ekki að byggja upp sama samfélag og var hér 2007, við ætlum að byggja upp nýtt samfélag sem byggir á öðrum gildum, annarri hugmyndafræði. Það er algjörlega á hreinu að við erum ekki að reyna að bakka aftur til 2007. Núna er árið 2010 og árið 2013 verður vonandi þannig að við munum ekki einu sinni ræða slíkt mál vegna þess að það verður svo sjálfsagt að það séu að lágmarki 40% af hvoru kyni í stjórnum félaga að það verður engin umræða um þetta í samfélaginu þegar lögin taka gildi, vegna þess að þetta er eitthvað sem er þá þegar og við teljum eðlilegt.