138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[16:40]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það stendur víst upp á mig að svara fyrir allar syndir ríkisvaldsins í þessu máli. Ég skal svo sem reyna að gera það en ég vek engu að síður athygli á því að það er skilningur minn að efnahags- og viðskiptaráðuneytið og þar áður viðskiptaráðuneytið undir minni stjórn, hafi staðið sig eins og til er ætlast, þ.e. þær skipanir sem við höfum staðið fyrir í stjórnir hafa allar uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru almennt um jafnrétti og jafna skipan karla og kvenna, með einni undantekningu þó sem gerðist reyndar á föstudaginn var þegar kona kom í stað karls í stjórn FME og þar með voru þar tvær konur í aðalstjórn og tvær konur í varastjórn en á móti bara einn karl í aðalstjórn og einn karl í varastjórn. Það er eina syndin sem ég vil viðurkenna fyrir mitt ráðuneyti í þessum málum og það kann vel vera að okkur verði fyrirgefið það.

Auðvitað er það svo að víða er pottur brotinn, ég ætla alls ekkert að neita því. Varðandi þá aðila sem hv. þm. Eygló Harðardóttir nefndi sérstaklega, skilanefndir og slitastjórnir og stjórnir bankanna, er staðan sú að skilanefndirnar voru flestar upphaflega tilnefndar af FME árið 2008 í miklum flýti. Slitastjórnirnar eru skipaðar af dómstólum með sama hætti og skiptaráðendur. Stjórnir bankanna eru skipaðar af Bankasýslunni sem hefur tekið upp mjög fagleg vinnubrögð í þeim efnum og er með sérstaka valnefnd og óskar eftir tilnefningum. Ég fæ ekki betur séð en að út úr því ferli sé að koma ágætisskipan mála og vonandi getur það orðið fordæmi fyrir aðra.

Annað sem stendur upp á framkvæmdarvaldið er kannski fyrst og fremst það að huga að skipunum í þær stjórnir sem heyra undir viðkomandi ráðherra hverju sinni, og það höfum við gert að mínu mati. Síðan að koma frumvörp eins og þetta, og það höfum við gert og munum sjálfsagt gera áfram.