138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[16:55]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að taka undir með hv. þingmanni að á þessum tímamótum þurfum við að ræða um hugmyndafræði. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort honum finnist eðlilegt að kennarastarfið sé orðið að allmiklu leyti kvennastarf, hvort ekki væri æskilegra að jafnari hlutföll væru á milli kynjanna, bæði í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum. Þetta voru áður fyrr karlastörf, alla vega í grunnskólum og framhaldsskólum. Þetta eru kvennastörf í dag. Er ekki rétt að við skoðum aðeins hugmyndafræðina á bak við þetta og hvort ekki væri réttara að reyna að jafna þessi hlutföll, frekar en að hanga í 2007-farinu þar sem karlmenn hætta að velja sér þessi störf, en þeir eru mjög mikilvægar fyrirmyndir fyrir unga fólkið í landinu, eins og hv. þingmaður veit.

Síðan vitnaði hv. þingmaður til þess að Jóhanna Sigurðardóttir væri nú íslenskur kvenforsætisráðherra. Ég segi: Það var nú kannski tími til kominn, 66 árum eftir að við stofnuðum þetta lýðveldi. Að mörgu leyti er ekki viðunandi hvernig staðið hefur verið að jafnréttismálum.

Svo vil ég mótmæla því sem hv. þingmaður sagði að við nálguðumst þessi mál eingöngu á forsendum kvenna. Hvernig var það með fæðingarorlofslöggjöfina, þar vorum við að bæta réttindi karlmanna. Þá var verið að hugsa um rétt barna til að umgangast feður sína sem höfðu ekki kost á því áður.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún hafi verið sammála ungum sjálfstæðismönnum á þeim tíma að með því að fjölga mánuðunum upp í níu ætti það ekki við bæði kynin, þ.e. þrír mánuðir. Er hún sammála því að menn ættu að hefta frelsi með þeim hætti, eins og sjálfstæðismenn sögðu þá? Við framsóknarmenn sögðum að grundvallaratriði með þeirri löggjöf væri að hafa ákveðnar skerðingar hvað þessi mál varðaði til að vera jafnvel á undan og breyta samfélaginu. Karlmenn hafa verið að taka þetta fæðingarorlof með mjög góðum árangri og löggjöf (Forseti hringir.) sem við settum á sínum tíma er að mati margra ein sú framsæknasta í veröldinni.