138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[17:01]
Horfa

Erla Ósk Ásgeirsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er rætt um einkaframtakið og einkaaðila. Það sem hv. þingmaður kom inn á varðandi það og þann laka árangur sem hann heldur fram að þar hafi náðst fer það í rauninni eftir því hvernig maður lítur á málið. Ég get alveg tekið undir að hlutur kvenna í stjórnum fyrirtækja er mjög rýr og ég ætla ekkert að bera neitt annað á borð hér. Ég mundi svo sannarlega vilja sjá fleiri konur í stjórnum fyrirtækja og að fleiri konur tækju að sér forustustörf í atvinnulífinu. Þetta snýst ekki um það. Þetta snýst hins vegar um þau skilaboð sem við erum að senda út í samfélagið. Þetta snýst um þau skilaboð sem við sendum til ungra kvenna. (Gripið fram í.) Við — fyrirgefðu, hv. þingmaður grípur hér fram í en ég næ ekki því sem hann segir, en þetta snýst um þau skilaboð sem við sendum til ungra kvenna og ég tel að þetta séu röng skilaboð.