138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[17:04]
Horfa

Erla Ósk Ásgeirsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er rætt um eigendur fyrirtækja. Þeir þurfa að fara að lögum sem gilda í samfélaginu, þeir munu jafnframt þurfa að fara að þessum lögum ef samþykkt verða en í þeim tel ég ansi langt seilst. Ég verð að segja að mér misbýður algerlega þegar gert er lítið úr þeim árangri þeirra kvenna sem náð hafa árangri, (SF: Hver gerir það?) eins og Vigdísar Finnbogadóttur eða (SF: Hver gerir það?) Jóhönnu Sigurðardóttur. Þetta er alveg ótrúlegt. Ég held að okkur væri nær að draga saman þær konur sem hafa náð árangri til að sýna fram á að þetta er hægt. Það er til fullt af góðum konum og margar konur eru búnar að brjóta hið svokallaða glerþak.

Hv. þingmaður sagði að kynferði skipti svo sannarlega máli. Það er það sem við viljum ekki, við viljum ekki að kynferði sé aðalatriðið hér. Ég kem ekki hérna inn og er alltaf að hugsa um að ég sé kona. Ég er alþingismaður, ég er Erla Ósk, ég er Íslendingur. Ef við gerum svona mikið úr kynferði fer þetta á endanum að snúast allt um kynferði. Það er bara ekki stóra atriðið.

Það er ekki vöntun á konum. Það er rangt að það sé vöntun á konum. Það er til fullt af hæfum konum sem eru tilbúnar til að gegna ábyrgðarstörfum og berjast fyrir því.