138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[17:10]
Horfa

Erla Ósk Ásgeirsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir spurninguna sem hann bar hér fram. Hann spyr: Hvernig getur það verið hótun að setja núna í lög að kynjakvótar taki gildi eftir þrjú ár? Ja, mér finnst það augljóst, það er látið hanga yfir atvinnulífinu að ef það gerir þetta ekki sjálft er löggjöf á leiðinni. Þetta er hótun um valdboð og það er náttúrlega ekki hægt að segja að þetta sé neitt annað en það er. Mér finnst mjög skrýtið hvernig hægt er að skilja það öðruvísi.

Hvað varðar þessi lög, ef við gefum okkur að frumvarpið verði samþykkt í dag, og hvort Sjálfstæðisflokkurinn muni beita sér fyrir því að þau verði afnumin er í rauninni ekki mitt að svara fyrir hér í dag. Framtíðarþingmenn Sjálfstæðisflokksins munu gera það. Ég mundi þó tala fyrir því að þau yrðu afnumin, ég sjálf mundi gera það af því að ég treysti atvinnulífinu og þeim sem stýra fyrirtækjunum til að kalla fram það besta sem mannauðurinn hefur upp á að bjóða og ég trúi því að þeir muni sjá að það er best fyrir fyrirtækin að hafa bæði konur og karla í stjórnum fyrirtækjanna.