138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

almenningssamgöngur.

14. mál
[17:32]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Frú forseti. Almennt séð er ég ákaflega hlynntur því að íbúar svæða, byggðarlaga, bæja og borga, hafi aðgang að góðum almenningssamgöngum. Við fyrstu sýn og fyrstu kynningu á þessu frumvarpi sýnist mér að það sé alls ekki vitlausara en margt sem er lagt fram í þinginu og ég hlakka til að kynna mér það betur og taka afstöðu til þess þegar líður á seinni umræður.

Mig langaði bara að nota tækifærið og vekja máls á einu. Ég hrökk í kút þegar ég las 1. gr. frumvarpsins þar sem er, með leyfi forseta, talað um „að stuðla að öflugum, öruggum og hagkvæmum almenningssamgöngum í lofti, á láði og legi með sjálfbæra þróun að leiðarljósi“. Sjálfbær þróun er yndislegt fyrirbæri þar sem hægt er að koma henni við. Ég er mjög forvitinn um sjálfbæra þróun og ég er líka svolítið smeykur við hana af því að þetta er tískuorð og merkir pólitískan rétttrúnað. Hvað er sjálfbær þróun í sambandi við almannasamgöngur? Ég sé ekki fyrir mér sjálfbæran strætisvagn eða sjálfbæra flugvél, ekki nema sem áhöld sem eru knúin eilífðarvélum sem enn hafa ekki verið fundnar upp. Mig langar til að biðja flutningsmann að upplýsa mig í fáfræði minni um hvort sjálfbær þróun í þessu frumvarpi er pólitískt rétt hugsað tískuorð (Forseti hringir.) eða hvort það hefur einhverja alvörumerkingu.