138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

almenningssamgöngur.

14. mál
[17:50]
Horfa

Flm. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hans í umræðuna. Ég tek undir það að kannski hefði mátt huga að því að hafa fleiri flutningsmenn. Nú kom þetta frumvarp fram strax í upphafi þings í haust og kannski hefði flutningsmaður átt að huga betur að því, þegar hann undirbjó endurflutning þessa máls áður en þing kom saman, að leita til þingmanna annarra flokka. Ég fagna þeim áhuga sem þingmaðurinn sýnir í þessu efni.

Þó að við horfum oft á almenningssamgöngurnar út frá höfuðborgarsvæðinu og að mikilvægt sé að efla hlut almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu þá helgast það ekki síst af því sem þingmaðurinn nefndi eins og umhverfismálum, loftgæðum og öðru slíku. Það má líka nefna að á undanförnum árum hafa skapast miklar umferðarteppur á álagstímum sem eru samt ekki nema kannski tveir til fjórir klukkutímar á sólarhring. Fyrir utan það standa umferðarmannvirkin auð eða lítið nýtt. Það er mikil sóun á fjármunum að bregðast alltaf við með því að bæta við umferðarakreinum. Þess vegna hefur þessi umræða skapast mjög mikið hér á höfuðborgarsvæðinu, að eðlilegt sé að nýta fjármagnið, markaða tekjustofna í samgöngumálum, að hluta í almenningssamgöngur ekkert síður en í götur og gangstéttir og annað slíkt.

Þetta frumvarp horfir ekki bara á höfuðborgarsvæðið, alls ekki. Í 3. gr. er sérstaklega tekið fram að landinu öllu skuli skipt í þjónustusvæði almenningssamgangna. Í skýringum segir m.a. að gert sé ráð fyrir því að þjónustusvæðin séu skilgreind í samgönguáætlun og þar sé einnig að finna markmið fyrir hvert svæði m.a. að því er lýtur af þjónustuþörf.

Frumvarpið er því hugsað sem rammi utan um skipulag almenningssamgangna. Það verði skilgreind svæði í samgönguáætlun, almenningssamgangnasvæði, og hin mismunandi þörf milli svæða (Forseti hringir.) verði þar skilgreind og það fjármagn sem á að fara inn á hvert svæði til þess að efla almenningssamgöngur. (Forseti hringir.) Þetta er mjög mikilvægt. Ég tek heils hugar undir með þingmanninum hvað þetta snertir.