138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

almenningssamgöngur.

14. mál
[17:54]
Horfa

Flm. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála því sem hv. þingmaður segir hér og því sem hann ræðir sérstaklega um í tengslum við landsbyggðina. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur að bjóða upp á góðar og öflugar almenningssamgöngur á landsbyggðinni innan svæða og milli svæða og að sjálfsögðu eins við höfuðborgarsvæðið.

Það liggur í hlutarins eðli að þeir sem byggja eyjar og geta þar af leiðandi ekki farið upp í sinn einkabíl og keyrt eins og þeim sýnist eru háðir því að í boði séu annars konar samgöngur, eins og ferjusamgöngur. Þær eru auðvitað styrktar af almannafé í gegnum samgönguáætlun. Ég lít svo á að í því felist viðurkenning á því að þær eru hluti eða eiga að vera hluti af þjóðvegakerfi okkar. Ég er sammála þingmanninum í þessu efni. Ég fagna þeirri áherslu sem hann leggur á þetta.

Eins og ég gat um hér áðan er þetta líka efnahagslegt atriði, bæði fyrir samfélagið í heild en líka fyrir sérhvern einstakling í samfélaginu sem nýtir sér samgöngur, því að allir gera það með einhverjum hætti. Þannig að það er líka efnahagslega mikilvægt að efla almenningssamgöngur og gefa fólki a.m.k. kost á raunverulegu vali milli samgöngumáta, því að svo hefur í sjálfu sér ekki verið hingað til. Það hefur verið skortur á því að almenningur í landinu hefði raunverulegt val um það. Getur það tekið strætisvagn eða getur það tekið rútu sem valkost við einkabílinn? Í því felst ekki endilega að menn eigi ekki að eiga bíla, það snýst ekki um það. Það snýst um það að fólk geti haft þetta raunverulega val og að jafnræði sé á milli samgöngumátanna. Það er m.a. hugtak sem er notað hér, það er jafnræði á milli samgöngumáta. Mér finnst það vanta mjög tilfinnanlega inn í skipulag okkar samgangna í dag. Við höfum markaða tekjustofna (Forseti hringir.) í samgöngumálum sem eiga að sjálfsögðu líka að nýtast í þennan mikilvæga samgöngumáta ekkert (Forseti hringir.) síður en aðra.