138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

almenningssamgöngur.

14. mál
[18:07]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langaði í örstuttu máli að þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir þetta mjög svo mikilvæga þingmál. Þetta er brýnt fyrir nýja Ísland. Við höldum stundum að hið nýja betra Ísland snúist bara um annars konar fjármálakerfi en það gerir það ekki, það snýst um svo margt. Þar skipa bættar almenningssamgöngur stóran sess því það breytir lífsháttum okkar. Það gerir líf einstaklinga og fjölskyldna þægilegra á allan hátt fyrir utan að spara peninga sem eru, eins og hér hefur verið komið inn á, af skornari skammti nú en fyrir nokkrum missirum hjá ýmsum. Þetta er gott fyrir samfélagið sem heild, ekki bara fyrir stórhöfuðborgarsvæðið heldur líka landsbyggðina. Þetta bætir lífsgæði og bætir náttúrugæði sem er ekki síður mikilvægt. Þetta er þjóðhagslega hagkvæmt. Þetta gefur okkur til baka fjármuni frekar en að taka frá okkur. Þetta er því á allan hátt mikilvægt mál.

Ég sem þingkona á höfuðborgarsvæðinu, stórhöfuðborgarsvæðinu, hef náttúrlega reynt eins og við öll sem búum hér á þessu svæði hvers lags mistök hafa í rauninni verið gerð í skipulagsmálum og samgöngumálum hvað þetta varðar. Það hefði þurft að leggja miklu meiri áherslu á bættar almenningssamgöngur.

Ég tek undir líka það sem hér hefur komið fram að þetta er mjög mikilvægt fyrir landsbyggðina, að horfa einnig til landsins alls og landsbyggðarinnar. Ég tel að þetta frumvarp geri það.

Ég tek líka undir það sem hér hefur verið sagt að mikilvægt er að greiða veg þingmála sem einstaka þingmenn leggja fram. Þetta er gott dæmi um mál sem einmitt er brýnt að vinna vel í nefnd á skilvirkan hátt og koma því svo til lokaafgreiðslu. Ég þakka því fyrir gott mál.