138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

almenningssamgöngur.

14. mál
[18:10]
Horfa

Flm. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hefur orðið um þetta mál og þakka hv. þingmönnum Birki Jóni Jónssyni, Höskuldi Þórhallssyni og Guðríði Lilju Grétarsdóttur fyrir viðbrögð þeirra við þessu þingmáli og þeirra orð.

Ég vil fyrst segja vegna þeirra ummæla sem hér féllu að æskilegra hefði verið að þetta væri stjórnarfrumvarp, að það er áreiðanlega rétt svona miðað við þá hefð sem hér hefur skapast á mörgum undanförnum árum að það séu fyrst og fremst stjórnarfrumvörp sem fái brautargengi í meðförum Alþingis, en síður þingmannamál. Við því er það að segja í fyrsta lagi að þetta mál var upphaflega flutt af mér og nokkrum öðrum þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þegar ég var þingmaður í stjórnarandstöðu og hafði þá ekki sömu aðstöðu til að beita mér fyrir framlagningu stjórnarfrumvarpa. Ég hef verið að vekja máls á þessum málaflokki reyndar mjög lengi, ekkert bara hér á vettvangi Alþingis heldur um langt skeið sem borgarfulltrúi í Reykjavík og sem þátttakandi í samstarfi sveitarfélaga á landsvísu, innan Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þetta er málaflokkur sem ég hef lengi látið mig varða og hef mikinn áhuga á. Þannig kemur það til að málið er flutt núna með þessum hætti. Síðan er auðvitað hitt, og það er rétt sem kemur fram í umræðunni, að það er sjálfsagt mál að þingmannafrumvörp eða þingmannatillögur fái efnislega meðferð á Alþingi í þingnefndum og komi þaðan út til afgreiðslu annaðhvort með því að leggja til að þau séu samþykkt, breytt eða óbreytt eftir atvikum, eða jafnvel að leggja til að þau séu felld, af því að mér finnst mjög eðlilegt að mál fái afgreiðslu út úr þingnefndum burt séð frá því hvernig þingnefndin síðan leggur til að afgreiðslan verði. Það hefur ekki verið hefð hingað til.

Ég vil líka segja af því að hér komu fram sjónarmið um að frumvarpið sé höfuðborgarmiðað, þá má til sanns vegar færa að það eru svona vissir þættir í því sem líta mjög mikið á stöðu mála á höfuðborgarsvæðinu, einkum að því er varðar samgöngur á landi. Það helgast auðvitað af þeim vanda sem hér hefur skapast og farið vaxandi á undanförnum árum í samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins, sem er umtalsverður og þeirrar skipulagsstefnu á þessu svæði um áratugaskeið, að byggja samgöngur á einkabílum fyrst og fremst. Það er ekki nýtt. Þannig hefur höfuðborgarsvæðið verið byggt upp um langa tíð. Það er erfitt að snúa því þegar menn eru komnir svo langt í því efni.

Ég hef líka verið áhugamaður um að kanna kosti þess að notast við annars konar samgöngur, svokallað lestakerfi sem ekki er til hér á landi, og flutt þingsályktunartillögur þar að lútandi með flutningsmönnum úr öllum þingflokkum hér áður. Ég tel að það sé kostur sem við eigum að skoða alveg til þrautar, hvort það geti verið vænlegt fyrir okkur að leggja áherslu á það. Þó að vissulega sé mikill stofnkostnaður í því fólginn sparar það hins vegar á mörgum öðrum sviðum. Af því að hv. þm. Þráinn Bertelsson spurði um hvað væru sjálfbærir strætisvagnar má kannski segja að sporvagninn sé sjálfbær strætisvagn í sjálfu sér ef hann notar innlenda orkugjafa, mengar ekki andrúmsloftið og eykur öryggi, þá getur það verið ákveðið form á því.

Hvað snertir landsbyggðina vil ég ítreka það sem ég sagði áðan í andsvörum við hv. þm. Birki Jón Jónsson að ég tel að það sé ekki síður mikilvægt að horfa á hagsmuni hinna dreifðu byggða og landsbyggðarinnar í heild í þessu efni. Ég tel að t.d. skilgreining á sérstökum þjónustusvæðum almenningssamgangna eins og þetta frumvarp gerir ráð fyrir um allt land eigi að tryggja það og þar sem þörfin er metin á hverju svæði fyrir sig. Hún er sannarlega mismunandi, það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni, að þarfirnar eru mismunandi milli landsvæða.

Hugsunin er sú að í samgönguáætlun séu þessi svæði skilgreind og þarfirnar á hverju svæði fyrir sig skilgreindar. Það er augljóst að meiri áhersla verður á hefðbundnar strætisvagnasamgöngur innan höfuðborgarsvæðisins heldur en annars staðar, en það kemur ekki í veg fyrir það, eins og t.d. var nefnt hér um Eyjafjarðarsvæðið, að mikilvægt sé að bjóða upp á öruggar og góðar almenningssamgöngur á því svæði, bæði fyrir vinnandi fólk og skólanema. Við þekkjum öll þá mynd sem felst m.a. í því að verið er að skutla börnum og ungmennum af einum stað á annan, úr skóla, í frístundir og fram og til baka. Þetta kostar auðvitað heilmikið, bæði fyrir fjölskyldur og samfélagið. Það er því mikilvægt að við bjóðum líka upp á góðar almenningssamgöngur, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu, heldur úti um allt land.

Í umræðum um að efla byggð, efla atvinnu á svæðum allt í kringum landið, ein umræðan í því efni er sameining sveitarfélaga. Hvað hefur verið gert, t.d. á Ísafirði þar sem þrír, fjórir þéttbýliskjarnar eru sameinaðir í eitt sveitarfélag? Jú, þar er farið að bjóða upp á almenningssamgöngur. Það er ekki lögbundið verkefni sveitarfélagsins en sveitarfélagið telur að það sé mikilvægt að bjóða upp á almenningssamgöngur á milli byggðarkjarnanna fyrir íbúa sína. En það er engin löggjöf utan um það og engin trygging fyrir því að sveitarfélagið fái einhverja fjármuni til að standa straum af slíkri þjónustu, sem ég tel mikilvægt.

Sama á við á öðrum svæðum. Það eru almenningssamgöngur í Reykjanesbæ, á Akureyri, á Eyjafjarðarsvæðinu. Hér á þessu svæði, í næsta nágrenni, hafa verið gerðir samningar á milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu sem reka sitt byggðasamlag, Strætó, við Akranes, við Hveragerði, um almenningssamgöngur til að tengja þau byggðarlög við höfuðborgarsvæðið, sem er líka mikilvægt.

Ég tel að það sé brýnt fyrir okkur að horfa á þetta heildstætt og skilgreina hvaða þjónusta það er sem við viljum veita á þessu sviði og setja utan um það almennan ramma og tryggja síðan að bæði ríkið og sveitarfélögin hafi tæki og möguleika á að bjóða upp á slíka þjónustu.

Hér var flugvöllurinn nefndur og flugsamgöngurnar við höfuðborgarsvæðið. Ég er þeirrar skoðunar að það sé líka mjög mikilvægt fyrir okkur að tryggja góðar flugsamgöngur alls staðar að af landinu við höfuðborgarsvæðið. Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson og ég erum kannski ekki alveg nákvæmlega sammála um hvar flugvöllurinn á að vera í Reykjavík í því efni. Og af því að hann nefndi að það sé varla til nokkur borg sem ekki býður upp á einhvers konar samgöngumiðstöð í miðborginni, þá er nú verið að ræða um samgöngumiðstöð einmitt í miðborginni. Hann nefndi lestastöðvarnar í stórborgum til marks um það. Það er alveg rétt en víða eru þær skipulagðar þannig að til að lágmarka það rými sem fer undir þau samgöngumannvirki eru þær að hluta til neðan jarðar. Það er óhentugra með flug að skipuleggja það með þeim hætti. Það er því ekki alveg sambærilegt að mínu viti að bera saman lestarstöðina í miðborg Kaupmannahafnar og Reykjavíkurflugvöll.

Þó að ég sé þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að tryggja góðar flugsamgöngur alls staðar á landinu við höfuðborgina er ekki endilega þar með sagt að flugvöllurinn þurfi að vera í miðborginni sjálfri eins og hann er hér. Það er nokkur munur á því. Auðvitað vitum við að það eru flugvellir víða í borgum en ég held að séu ekki mörg dæmi um það að hann sé í sjálfri Kvosinni eins og hún leggur sig. Það hagar þannig til hér að við erum með annan flugvöll í um 40–50 km fjarlægð, það er kannski býsna langt fyrir marga en þá kæmi aftur í góðar þarfir tillaga mín um lestarsamgöngurnar og lestina milli Keflavíkur og Reykjavíkur ef við gætum búið svo um hnúta eins og víða í kringum okkur að það tæki ekki nema 15–20 mínútur að fara frá miðborg Reykjavíkur á flugvöll, þá væri það ásættanlegt að mínu mati. En það er nú kannski meiri framtíðarmúsík heldur en svo að við séum að leysa það alveg á allra næstu árum.

Ég vil þakka hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í þessari umræðu fyrir viðbrögð þeirra og almennan stuðning eða stuðning við meginhugsunina sem þetta frumvarp felur í sér. Ég vonast að sjálfsögðu til að það fái góða og jákvæða umfjöllun í samgöngunefnd. Eins og ég gat um í framsögu minni var það sent til umsagnar á 136. þingi. Það komu nokkrar umsagnir og ég hef að einhverju leyti tekið mið af þeim og breytt frumvarpinu til samræmis en að öðru leyti ekki. Það kemur í ljós í frekari vinnslu í þinginu hvaða meðferð málið fær.

Ég ítreka þakkir mínar til þeirra sem tekið hafa þátt í umræðunni og ég tel að það sé mikilvægt innlegg í umræður um bættar almenningssamgöngur á landinu öllu.