138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hámarksmagn transfitusýra í matvælum.

20. mál
[18:30]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég flyt hér tillögu til þingsályktunar um setningu reglna um hámarksmagn transfitusýra í matvælum. Sú er hér stendur flytur þetta mál í félagi við átta aðra hv. þingmenn og ég ætla að leyfa mér að lesa þá upp, virðulegur forseti, en þeir eru: Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Álfheiður Ingadóttir, Þuríður Backman, Sigurður Ingi Jóhannsson, Vigdís Hauksdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Guðmundur Steingrímsson. Þetta eru þingmenn úr fjórum flokkum, þ.e. Framsóknarflokknum, Samfylkingunni, Sjálfstæðisflokki og Vinstri grænum. Síðan hef ég spurnir af því — alla vega einn hv. þingmaður í Hreyfingunni talaði við mig áðan, hann gat ekki verið viðstaddur umræðuna en lýsti sig mjög fylgjandi málinu. Ég tel því að nokkuð breið samstaða sé um að þetta mál sé til bóta.

Ég vil líka, með leyfi virðulegs forseta, fá að lesa þingsályktunargreinina sjálfa. Hún hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hefja undirbúning að setningu reglna um að hámarksmagn transfitusýra í matvælum verði tvö grömm í hverjum hundrað grömmum af fitumagni vörunnar.“

Svo fylgir greinargerð þessu til rökstuðnings.

Tillagan er flutt núna í þriðja sinn, hún var áður flutt á 135. og 136. löggjafarþingi. Mikil umræða hefur verið um þessi mál síðustu árin, þ.e. magn transfitusýra í matvælum, og sú umræða hefur verið mjög mikil á Norðurlöndunum, m.a. á vettvangi Norðurlandaráðs. Þar heyrði ég fyrst af þessu máli og fór að kynna mér það. Bæði velferðarnefnd Norðurlandaráðs, sem ég veiti nú forstöðu eða er formaður í, og önnur nefnd, neytendanefndin, hafa sameiginlega skoðað þetta mál sérstaklega og er mikill vilji til að fá ríkisstjórnir Norðurlanda til að taka á þessu máli en Danir hafa nú þegar gert það.

Nú er það svo, virðulegur forseti, að neysla á transfitusýrum eykur mjög mikið líkur á hjarta- og æðasjúkdómum og mun meira en neysla á mettaðri fitu sem margir þekkja þó sem mikinn áhættuvald fyrir slíka sjúkdóma, en hjarta- og æðasjúkdómar eru þeir sjúkdómar sem draga flesta í gröfina og því er þetta mikilvægt mál. Neysla á hertri fitu, þ.e. transfitusýru, eykur líka hættuna á offitu og sykursýki 2. Sett hafa verið fram töluleg líkindi á því að fá hjarta- og æðasjúkdóma og ljóst er að líkurnar á hjarta- og æðasjúkdómum eru taldar aukast um 25% ef neytt er 5 g af hertri fitu á dag. Sú tala, 5 g af hertri fitu á dag — það er ekki óalgengt að fólk neyti þess magns — eykur líkurnar á hjarta- og æðasjúkdómum um 25% og þetta er því gífurlega mikil vísbending um hve transfitusýrur eru hættulegar. En það er mjög auðvelt að fá margfalt þetta magn eingöngu í einni máltíð.

Hvað eru transfitusýrur? Transfitusýrur myndast þegar olía er hert, en hörð fita er notuð til að matvæli fái ákveðna eiginleika sem taldir eru eftirsóknarverðir, svo sem aukið geymsluþol. Það er því verið að breyta fitunni, herða fituna í ákveðnu iðnaðarferli til að hún geymist mjög lengi og þá er hægt að selja vöruna lengur án þess að hún falli út á dagsetningu. Auðvitað er þetta eftirsóknarvert að mati þeirra sem framleiða og selja. Í þessu sambandi er einkum um að ræða matvörur eins og bökunarsmjörlíki eða djúpsteikingarfeiti sem innihalda herta fitu og þær vörur sem mögulega innihalda transfitusýrur eru t.d. smjörlíki, steikingarfeiti, kökur og kex, auk franskra kartaflna. Þá inniheldur djúpsteiktur skyndibitamatur, örbylgjupopp, snakk og sælgæti í mörgum tilvikum umtalsvert magn transfitusýra. Dæmi eru um að hert fita geti verið allt að 60% af heildarfitumagni í matvöru. Ég hef nú talið upp helstu matarflokka sem innihalda transfitusýrur, ég er ekki að segja að það séu transfitusýrur í þessu öllu en þær er helst að finna í þessum matvöruflokkum.

Steen Stender, sem er yfirlæknir á Gentofte Hospital í Danmörku, hefur rannsakað magn transfitusýra í völdum fæðuflokkum, skyndibita, kexi, kökum og örbylgjupoppi, og það kemur fram í rannsóknum hans að Ísland er í 8. sæti á lista 24 þjóða sem rannsóknin náði til. Í greinargerðinni fylgir sérstök tafla sem sýnir meðaltalsmagn í þessum fæðuflokkum og það miðast við 100 g. Ef maður kíkir á þessa töflu sést að í löndum þar sem er mest transfitusýra í þessum fæðuflokkum; þ.e. skyndibita, kexi, kökum og örbylgjupoppi, er staðan verst í nokkrum austantjaldslöndum, í Bandaríkjunum og Kanada og svo komum við þarna þar á eftir. Þetta er langverst í Ungverjalandi, Tékklandi, Póllandi og Búlgaríu, síðan koma Bandaríkin, Kanada og Perú og síðan kemur Ísland. Þarna er verið að tala um meðaltalsmagn í 100 grömmum og það land sem toppar transfitusýrumagnið er Ungverjaland með 42 g og Ísland er í 8. sæti er með 35 g. Svo koma lönd sem eru fyrir neðan en það er mjög eftirtektarvert, virðulegur forseti, að Norðurlöndin eru lág og kemur ekki á óvart að Danmörk er langlægst, enda eru þar reglur, stífar reglur um transfitusýru. Noregur er í 20. sæti, þ.e. 5 neðsta sæti, með 16 g, Svíþjóð með 14 g í 21. sæti, þá kemur Finnland í 22. sæti með 10 g, Sviss í 23. sæti með 5 g og á botninum er Danmörk í 24. sæti með 0,4 g. Danmörk sýnir hér stórkostlegan árangur með lágt innihald af transfitusýrum í mat.

Það vekur auðvitað mikla athygli, virðulegur forseti, að Ísland skuli raða sér á bekk með Austur-Evrópuþjóðum og Bandaríkjamönnum, en Norðurlandaþjóðirnar eru búnar að ná miklu betri árangri í þessum efnum.

Ég átti þess kost að hitta Steen Stender á fundi þar sem hann kynnti þessi mál fyrir velferðarnefnd Norðurlandaráðs og neytendanefndinni. Hann fullyrti, og það var svolítið merkilegt að heyra það út frá þessari rannsóknum, að transfitusýrur væru svo sem ágætar í skóáburð og koppafeiti en ættu hreint ekkert erindi í matvæli. Það var merkilegt að heyra lækni taka svona djúpt í árinni.

Samkvæmt ráðleggingum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar er æskilegt að neysla á transfitusýru fari ekki yfir 2 grömm á dag. Rannsóknir á neysluháttum Íslendinga gefa til kynna að neyslan á transfitusýrum sé hér nokkuð hærri en þau mörk og hærri en sambærilegar neyslutölur hjá mörgum öðrum Evrópuþjóðum. Neysla á transfitusýrum á Íslandi hefur minnkað um tæplega þriðjung á síðustu tveimur áratugum og það er jákvætt. Þar vegur þyngst minni smjörlíkisneysla og líka það að samsetningu smjörlíkis hefur verið breytt og það er til bóta. Enn sem komið er skipa Íslendingar sér þó á bekk með þeim sem neyta mestrar hertrar fitu eða um 3,5 g á dag, sem er tæplega tvöföld sú neysla sem mælt er með.

Hér á landi er ekki skylda að merkja matvöru með næringargildismerkingu. Engar reglur eru í gildi hér um leyfilegt magn hertrar fitu í matvælum og engar reglur til um merkingar matvöru varðandi magn þessarar fitu. Neytendum er því ekki gefinn kostur á að sneiða hjá transfitusýrum þó að vilji væri fyrir hendi.

Árið 2003 settu Danir reglur sem kveða á um að það feitmeti sem reglurnar ná til megi ekki innihalda meira en 2 g af transfitusýrum í hverjum 100 g af fitu. Það eru því skýr mörk í Danmörku, 2 g af 100 g af fitu mega vera transfitusýrur, ekki meira. Menn lentu í smávandræðum með þessar reglur. Evrópusambandið samþykkti reglurnar í upphafi en eftir kæru frá tveimur matvælaframleiðendum, sem töldu að þær hindruðu frítt flæði matvöru innan sambandsins, vildi sambandið að Danir felldu þær niður. Danir neituðu því og voru tilbúnir til að láta málið fara fyrir Evrópudómstólinn. Evrópusambandið féll síðan frá málaferlum á hendur Dönum því að sýnt þótti að Danir væru að sporna við hugsanlegu heilsutjóni þegna sinna af völdum óæskilegs mataræðis með þessum reglum. Þetta byggðist á niðurstöðum vísindarannsókna en var ekki eitthvað sem menn héldu, þetta hafði verið rannsakað það mikið að Evrópusambandið treysti sér ekki til að fara með málið áfram og bakkaði. Danir hafa þessar reglur enn í gildi og hafa náð stórkostlegum árangri.

Danmörk er því fyrsta landið í heiminum sem tók af skarið og Danir hafa líka sett reglur um að það geti kostað tveggja ára fangelsi ef menn brjóta reglurnar, þannig að þeir eru nokkuð stífir á þessu. Reynsla Dana er sú að enn er talsvert magn matvæla flutt inn frá öðrum löndum sem hafa ekki sett sér reglur um hámark transfitusýra en í mörgum tilvikum hafa matvælaframleiðendur breytt framleiðsluháttum sínum til að koma til móts við hinar nýju reglur. Til að geta flutt inn vörur til Danmerkur hafa menn því breytt framleiðsluferlinu sem er jákvætt.

Í Bandaríkjunum hafa menn valið þá leið að setja reglugerð um merkingar á matvælum þannig að þessar upplýsingar koma fram á umbúðunum en þetta er mjög flókið fyrir neytandann sem þarf að rýna í merkingarnar og reyna að reikna út hvað hann megi borða mikið af viðkomandi matvöru til að komast ekki í áhættuhóp. Ég tel þetta mjög óhentuga leið. Að mínu mati er miklu æskilegra að hafa þetta klárt frá fyrstu hendi, að ekki megi vera meira en 2 g af transfitusýru í hverjum 100 g af matvælum og verja þannig neytandann svo hann þurfi ekki sjálfur að rýna í merkingar og reikna út hvað hann þoli mikið af þessu magni, það er algjör óþarfi.

Ég vil líka koma því að í þessu sambandi, virðulegur forseti, að í Bandaríkjunum hafa sum staðar verið tekin ákveðin skref sem eru jákvæð og það er auðvitað vegna þess að menn vilja ekki fá neikvæða umræðu um sinn mat. Í New York hefur frá júlí 2007 verið bannað að nota transfitusýrur í mat sem er framreiddur á veitingastöðum. Þeir hafa þannig reynt að verja neytendur.

Íslendingar hafa samt ekki stráfallið út af hjartaáföllum, virðulegur forseti, eða æðasjúkdómum. Margir spyrja sig af hverju við séum ekki verr farin miðað við það hve mikið við neytum af transfitusýrum. Ég spurði þennan danska lækni sérstaklega út í það. Hann taldi það vera vegna þess að við notum svo mikið af lýsi og það vægi upp á móti transfitusýrunum og verði okkur. En rannsóknir benda til þess að lýsisneysla vinni gegn neikvæðum afleiðingum af neyslu transfitusýra. Vonandi hættir þjóðin ekki að halda í þá gömlu góðu reglu, í þau gömlu góðu gildi að taka lýsi af því að íslenskt lýsi ver okkur gegn transfitusýrunum.

Eigi að síður telja flutningsmenn að við eigum að taka sama skref og Danir. Það er ekki flókið mál, þetta mundi kannski breyta einhverju hjá aðilum sem framleiða vöru með miklu hærra magn transfitusýra en æskilegt er talið, þeir þyrftu að aðlagast þessu að einhverju leyti. Við teljum að taka eigi þetta skref að takmarka magn transfitusýra við 2 g í hverjum 100 g af vöru til þess að verja neytendur. Neytendur sem eru í mestri hættu eru börn og unglingar sem neyta skyndibitafæðu og eins þeir sem grípa með sér skyndibita t.d. vegna aðstæðna í vinnuumhverfi sínu. Ýmsar stéttir gera það í meira mæli en aðrar. Þetta mundi koma þessum hópum mest til góða, þ.e. aðallega börnum og unglingum og þeim sem neyta skyndibita í of miklum mæli.