138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

réttarbætur fyrir transfólk.

168. mál
[18:57]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við þarfa og tímabæra þingsályktunartillögu og vil ég þakka hv. flutningsmönnum hennar kærlega fyrir hana. Fylgiskjal með tillögunni lýsir málsmeðferð umboðsmanns Alþingis en hann fékk til umsagnar kæru vegna synjunar einstaklings um nafnabreytingu en tók svo upp af eigin frumkvæði að athuga lagaumhverfi um mál transfólks.

Þingsályktunartillagan talar um transfólk en í fylgiskjölum er talað um fólk með kynskiptahneigð, kynáttunarvanda, transgender-fólk og sjúklinga með ákveðna og langvarandi sannfæringu fyrir að tilheyra hinu kyninu. Það hve hugtök eru á reiki endurspeglar að hér er um nýja stöðu að ræða, þótt án efa hafi transfólk alltaf verið til, þar sem breyting á kyni er sem betur fer möguleg nú á dögum og sífellt fleiri ákveða að leiðrétta sitt kyn þótt hópurinn sé að sjálfsögðu ekki mjög fjölmennur. Í þessum hugtakaflaumi megum við aldrei gleyma að hér er fyrst og fremst um manneskjur að ræða en ekki sjúklinga eða læknisfræðileg viðfangsefni og okkur ber að gæta að því að mannréttindi allra séu virt að fullu. Það er erfitt að ímynda sér aðstöðu og tilfinningar transfólks — það að finnast maður vera í líkama af röngu kyni — en það er engu að síður vel þekkt eins og dæmin sanna. Hlutverk samfélagsins hlýtur að vera að létta þegnunum lífið og það getum við svo sannarlega gert með því að rétta lagalega sem félagslega stöðu transfólks.

Eitt atriði er fyrirferðarmikið í ágætu fylgiskjali frá umboðsmanni Alþingis en það er tregða kerfisins til að heimila fólki sem hefur hafið það ferli að skipta um kyn og er farið að lifa sem einstaklingur af hinu kyninu til að skipta um nafn. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að mér þætti ákaflega óhentugt ef í persónuskilríkjum mínum, svo sem vegabréfi, kredit- og debetkortum og ökuskírteini, stæði Steindór Sigurðsson eða Guðbjörn Haraldsson. Ég efa ekki að það yrði mér til töluverðra trafala í mínu daglega lífi. Í fylgiskjalinu frá umboðsmanni Alþingis er rakin í löngu máli þrautaganga manneskju til að fá nafni sínu breytt í samræmi við það kynhlutverk sem viðkomandi er farin að lifa. Mér varð hugsað til ágætra gamanþátta sem heita Little Britain en þar koma iðulega upp smávægileg vandamál sem ekki er hægt að leiðrétta vegna þess að tölvan leyfir það ekki. „The computer says no!“ eða „Tölvan segir nei!“ er iðulega það svar sem fólk fær.

Kynskipti eru langt ferli sem tekur mörg ár og sumir kjósa að gangast ekki undir lokastig meðferðarinnar sem er skurðaðgerð. Við hljótum að geta virt þau sjálfsögðu mannréttindi fólks að fá að ráða hvenær í þessu ferli það vill breyta nafni sínu. Raunar skil ég ekki einu sinni þau sjónarmið að fullorðið fólk geti ekki bara fengið að heita það sem það vill heita, óháð öllum kynáttunarvanda. Ég get ekki séð að samfélagið beri af því nokkurn skaða en benda má á nýlegt dæmi um baráttu listamannsins Curvers fyrir því að fá að heita Curver en það samræmist víst ekki íslenskri nafnahefð. Hvenær og hvort fólk sem hefur ákveðið að skipta um kyn breytir nafni sínu í þjóðskrá er smávægilegt vandamál fyrir þjóðfélagið. Ég get ekki einu sinni ímyndað mér kringumstæður þar sem slíkt gæti verið raunverulegt vandamál en það er stórmál fyrir það fólk sem er í þessu ferli.

Auðvitað er margt fleira sem þarf að huga að. Ég vil árétta að fólk kýs sér ekki það hlutskipti að fæðast í röngum líkama, það bara gerist. Fólk kýs ekki heldur að fæðast með klofinn hrygg en þegar það gerist leggst samfélagið á eitt að létta viðkomandi einstaklingi lífið og lækniskostnaður er greiddur af skattborgurunum. Mér skilst að transfólk beri hins vegar stóran hluta af kostnaði við kynskiptin sjálft. Ég vil taka undir það sem kemur fram í greinargerðinni með tillögunni að takmarkið hlýtur að vera að íslensk löggjöf verði í alla staði til fyrirmyndar þegar kemur að mannréttindum og jafnræði allra þegna samfélagsins, þar með talið transfólks.