138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson og Skúli Helgason hafa fitjað upp á ákveðinni nýbreytni undir þessum dagskrárlið um störf þingsins með því að veita eins konar andsvar við ræðu sem flutt var í gær, þ.e. ræðu hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar. Þetta er síðbúið andsvar sem þingmenn Samfylkingarinnar veita hverjir öðrum undir þessum dagskrárlið. (Gripið fram í.)

En það var annað mál sem ég ætlaði að ræða hér um. Ég er nefnilega í hópi þeirra sem verða fjarverandi á kjördag á laugardaginn kemur og nýtti mér því minn lýðræðislega rétt í gær til að kjósa utan kjörstaðar. Ég var ánægður með að sjá að fjölmargir voru að gera það sama á sama tíma. Þess vegna hefur mig undrað mjög mikið að fylgjast með því síðustu sólarhringana að fulltrúar ríkisstjórnarinnar, bæði hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra og raunar fleiri, hafa lagt sig fram um að tala niður þessa þjóðaratkvæðagreiðslu. Þó hafa yfir 3.000 manns nú þegar kosið utan kjörstaðar hjá sýslumanninum í Reykjavík samkvæmt upplýsingum sem ég fékk í morgun. Það er vaxandi áhugi á þessu máli, enda er mikið í húfi.

Gleymum því ekki að það eru bara rúmlega tveir sólarhringar þangað til þjóðaratkvæðagreiðslan á að hefjast. Samt sem áður tala ráðherrarnir um að það sé hugsanlegt að hverfa frá henni. Það er mjög sérkennilegt, m.a. í ljósi þess að við þurfum auðvitað að taka afstöðu til þessa mikla máls, Icesave-málsins, og það er rétt sem sagt hefur verið, það þarf að fella þennan samning. Þjóðin þarf að fá tækifæri til að fella hann.

Við vitum af hverju þessi staða er komin upp, hvers vegna við erum í þessum sporum. Stjórnarandstaðan beitti sér harkalega gegn Icesave-samkomulaginu. Það varð síðan til þess ásamt miklum þrýstingi almennings í landinu að forseti Íslands ákvað að synja lögunum staðfestingar. Þá var sagt að það mundi veikja málatilbúnað Íslendinga. Hið gagnstæða hefur gerst, m.a. hafa bæði hæstv. forsætis- og fjármálaráðherra viðurkennt að það hafi styrkt (Forseti hringir.) samningsstöðu okkar. Það er alveg rétt og nú þurfum við að ljúka þessu með þeim hætti sem við ætlum að gera, með því að fella á laugardaginn kemur þennan samning sem Alþingi samþykkti 30. desember.