138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa rætt mikilvægi þess að við komum atvinnulífinu hér af stað aftur.

Ástæðan fyrir að ég kvaddi mér hljóðs undir þessum lið er hins vegar vandamál heimilanna í landinu. Ég hvet þá hv. þingmenn sem hafa ekki lesið viðtal við ung hjón í Reykjanesbæ um síðustu helgi, þau Sonju Sigurjónsdóttur og Óla Jón Sigurðsson, til að lesa það. Þau lýsa raunveruleikanum sem íslenskar fjölskyldur búa við. Þau keyptu sér hús fyrir tveimur og hálfu ári og tóku til þess 20 millj. kr. lán og það var ekki að þetta fólk færi óvarlega. Þetta er sex manna fjölskylda sem keypti sér 115 fermetra hús. Þegar þau keyptu húsið gerðu áætlanirnar ráð fyrir því að þau yrðu með 160.000 kr. greiðslubyrði á mánuði. Nú er staðan þannig að lánið þeirra er komið í 48 millj. kr. og þau eru samt búin að borga tæpar 8 millj. kr. af húsnæðinu. Greiðslubyrðin núna hjá þessu unga fólki af húsnæði sínu er 420.000 kr. Ef þau nýttu sér þessa 110% leið sem margir kalla voðalega fína lausn fer greiðslubyrðin úr 420.000 kr. niður í 380.000 kr. Ef þau gefast upp, virðulegi forseti, eiga þau ekki neitt og eftir stendur 17 millj. kr. gat.

Hæstv. ríkisstjórn mun ekki gera neitt til að bjarga þessu enda hefur hún enga burði sýnt til þess, eins og kom fram í svari hæstv. forsætisráðherra. Það er verið að gera allt sem þarf að gera, skipa nefndir og skoða, en það gerist ekki neitt. Það getur ekki gengið lengur, virðulegi forseti. Því verða hv. þingmenn að taka völdin af ríkisstjórninni enda sýnist mér sem hæstv. félagsmálaráðherra sé mest upptekinn af því að koma uppnefnum sem passa við hann sjálfan yfir á aðra.