138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Þetta hefur verið athyglisverð umræða um atvinnumálin. Annan daginn í röð skamma þingmenn Samfylkingarinnar þingmenn Vinstri grænna fyrir að standa í vegi fyrir atvinnuuppbyggingu. Það er ekki hægt að skilja þetta öðruvísi og það er ekki hægt að skilja fjarveru Vinstri grænna í þessari umræðu öðruvísi en að um þetta ríki fullkominn ágreiningur innan ríkisstjórnarinnar. Takið eftir því, virðulegi forseti og hv. þingmenn, að ekki einn einasti þingmaður Vinstri grænna hefur stungið sér inn í umræðuna, tekið þátt í henni og lýst yfir stuðningi við ágæta ræðu hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar sem hvatti m.a. til þess að ryðja úr vegi hindrunum við stór og mikil verkefni sem þingheimur þarf að standa saman um. Það sagði þingmaðurinn og nefndi til að mynda álverið í Helguvík, framkvæmd sem við þingmenn Sjálfstæðisflokksins styðjum heils hugar. Þingmaðurinn veit fullvel að sú framkvæmd er ekki komin lengra vegna andstöðu, hindrana og tafa samstarfsflokks hans. Ég segi: Hvernig væri nú, hv. þingmenn, að við gerðum einmitt það, stæðum saman um að koma þessum framkvæmdum af stað? Ég hvet hv. þingmenn Samfylkingarinnar, þessa þrjá sem ég sé sérstaklega fyrir framan mig sem hafa í dag og í gær komið í ræðustól, beinlínis til að skamma Vinstri græna og segja þeim að fara á ríkisstjórnarfund, inn á þingflokksfund, í kaffistofuna, inn á fundi hjá þeim sem eru að vinna með þeim í ríkisstjórn vegna þess að það er hindrunin, ekki sú hindrun sem hv. þm. Skúli Helgason talaði um áðan. Hindrunin varðandi fjármögnun og erlenda fjárfesta er sú að þeir fá skilaboð frá þessari ríkisstjórn um að þeir séu ekki velkomnir. Þegar fólk stendur frammi fyrir valkostum vill það ekki koma í partí sem því er ekki boðið í. (Gripið fram í: Hvar er hindrunin varðandi Búðarhálsvirkjun?)