138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hæstv. ríkisstjórn notar skatta til að ráðast á atvinnu. Hún notar fyrningarleið til að ráðast á sjávarútveg. Hún notar umhverfismál til að stöðva virkjanir og svo segir hv. þm. Skúli Helgason að allt sé á fullu í atvinnulífinu. Það er það ekki. Ég spyr hv. þingmann: Hvar á að sækja um? Hvar getur atvinnulaust fólk sótt um alla þessa gífurlegu vinnu sem er í gangi? Hún er nefnilega ekki til. (Gripið fram í: Vinnumálastofnun.) Vinnumálastofnun? Ég bendi þá öllum atvinnulausum á að fara til Vinnumálastofnunar og losa sig við atvinnuleysið.

Enn þá ræðum við líka um Icesave. Ég ætla að fara á eftir og kjósa utan kjörstaðar því að ég er að fara út á land og ég gæti orðið veðurtepptur. Og ég ætla að njóta þess að segja nei við Icesave. Enn einu sinni ætla ég að segja nei við Icesave og ég skora á alla Íslendinga að gera það sömuleiðis og gefa samningamönnum okkar sem fara í samningaviðræður eftir kosninguna sterk vopn, sterka stöðu til að semja við Breta og Hollendinga, helst um að borga ekki neitt.

Menn hafa stöðugt verið að hóta, bæði hæstv. forsætis- og fjármálaráðherra komu í fjölmiðla í gær og sögðu að það væri svo mikil óvissa o.s.frv. Þeir sem sýsla með gengið hafa ekki trú á því því að gengið styrkist stöðugt þrátt fyrir alla þessa gífurlegu meintu óvissu. Og skuldatryggingarálag Íslands hefur lækkað um þriðjung á síðustu vikum. Það er ekki meiri óvissa en þetta. Auðvitað sjá allir sem vit hafa á málum að eftir því sem Icesave-deilan dregst og eftir því sem staða okkar batnar — því að hún batnar með hverjum deginum — minnkar skuldabaggi Íslendinga þannig að ég sé ekki annað en að það sé hið allra besta mál. Hver dagur meðan Íslendingar samþykkja ekki ríkisábyrgð á Icesave er góður dagur.