138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

aðgangseyrir að Listasafni Íslands.

241. mál
[14:04]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Fyrir nokkrum árum, eða um þremur árum síðan, komu forsvarsmenn og forstöðumenn Listasafns Íslands á fund þáverandi menntamálaráðherra til þess að kynna hugmyndir sem gætu stuðlað að aukinni aðsókn að Listasafni Íslands og eflt og glætt áhuga ekki síst unga fólksins á íslenskri myndlist og þeim munum sem þar eru og geta verið til sýnis.

Að sjálfsögðu var þá aðgangseyrir að því safni eins og hefur verið stefnan. Í ljósi þeirra markmiða sem uppi voru um að reyna að laða ekki síst þetta unga fólk að ákváðu þáverandi menntayfirvöld að fara þessar leiðir, heimila Listasafni Íslands þessa tilraun. En til þess að tryggja tekjurnar átti á móti að koma aukin sala á ýmiss konar munum sem eru til sölu í safninu. Mér skilst að það hafi gengið bara ljómandi vel, að tekjurnar hafi ekki síst aukist vegna þess að það eru fleiri gestir sem um leið eyða meiru innan safnsins í aðra þætti hvort sem það er kaffihús eða annað.

Um leið voru líka ákveðnir styrktaraðilar sem auðvelduðu Listasafni Íslands þá leið sem farin var. Í ljósi algjörlega breyttra aðstæðna er forvitnilegt að fá að vita hver afstaða hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra er til þessara mála núna þegar Listasafnið, eins og allar aðrar ríkisstofnanir sem þurfa að skera niður hjá sér — ekki nema ríkisstjórnin ætli að sneiða fram hjá því að ríkisstofnanir skeri niður, ég geri ekki ráð fyrir því. Listasafnið, eins og aðrar stofnanir, þarf því að hagræða, ekki bara á þessu ári heldur á næsta ári líka. Hvaða leiðir sér þá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra færar fyrir Listasafnið til þess að halda áfram á þessari braut, eða er ekki önnur leið fær en að hætta þá við þessa tilraun sem hafin var og gefið hefur nokkuð góða raun að ná því markmiði að auka aðsóknina að safninu? Hvaða leiðir sér hæstv. menntamálaráðherra þá fyrir safnið til þess að hægt verði að hafa ókeypis fyrir alla í Listasafnið?

Ég spyr ráðherra: Blasir þá ekki einfaldlega við í ljósi breyttra aðstæðna að Listasafn Íslands verði þá að taka upp aðgangseyri að nýju í safnið?