138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

nemendur í framhaldsskólum.

366. mál
[14:22]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að fagna þessari umræðu sem er afskaplega mikilvæg og má ekki gleymast nú um stundir í þeim aðstæðum sem við búum við á Íslandi. Ég lít svo á að framhaldsskólinn, rétt eins og grunnskólinn, sé grunnnám á Íslandi, og þar megi ekki undanskilja hann. Við verðum að standa sterkan vörð um grunnþætti í samfélagi okkar núna, svo sem heilsugæsluna, grunnskólann og framhaldsskólann, ég geri ekki greinarmun þar á, þegar kemur að aðlögun samfélagsins að þeim efnum sem það ræður við.

Það er mjög mikilvægt að horfa til alls þess breiða náms sem býðst um allt land nú um stundir og sækja þar fram fremur en að fara í vörn vegna þess að þetta er ekki einvörðungu fjárfesting fyrir þjóðina heldur og einstaklinga alla. Þar vil ég sérstaklega hvetja hæstv. ráðherra til að gleyma ekki mikilvægi verknáms hér á landi.