138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

nemendur í framhaldsskólum.

366. mál
[14:28]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu líka. Nú liggur það fyrir að í fyrsta lagi er ásóknin fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðinu þannig að þar er vandamál, þar eru langflestar synjanirnar. Að hluta til get ég svarað spurningu hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar játandi, það eru ekki næg pláss í boði en þau virðast hins vegar vera hér á höfuðborgarsvæðinu, hvort sem er í verknámi eða bóknámi. Þetta snýr kannski ekki bara að aðstöðu heldur líka að mjög þéttsetnum skólum á höfuðborgarsvæðinu. Það tengist því auðvitað að við erum með þennan stóra hóp í framhaldsskólanum, ekki bara á þessum aldri sem við tengjum hefðbundið við framhaldsskólana heldur er líka umtalsvert um eldri nemendur. Að hluta til eru það sögulegar skýringar því að margir sem sækja sér til að mynda verk- og iðnnám gera það síðar á lífsleiðinni en þeir sem fara í hefðbundið bóknám. Það skýrir þetta að hluta en þó ekki að öllu leyti.

Þetta er svipaður fjöldi og verið hefur og þar með talið eru ekki þau nýju námstækifæri sem eru núna í boði hjá Vinnumálastofnun. Ég lít svo á að þeir sem eru á atvinnuleysisskrá hafi síðan í önnur hús að vernda, þ.e. í menntatækifærin hjá Vinnumálastofnun sem eru innan framhaldsskólakerfisins en líka annars staðar. Ég hefði í raun og veru líka þurft að hafa þær tölur líka á takteinum frá félagsmálaráðherra. Við þyrftum eiginlega að hafa hann í salnum líka til að geta spurt hann út í þau úrræði því að þar eru nokkur hundruð námspláss sem nýtast atvinnulausum ungmennum.

Hvað varðar síðan fjölbreytnina er mikilvægt verkefni fram undan sem er að móta hið nýja framhaldsskólapróf, sem ég er viss um að á eftir að nýtast mjög mörgum. Kveðið er á um í nýjum lögum að fólk geti tekið framhaldsskólapróf. Ég held að það skipti miklu máli að skólarnir nýti tækifærið sem nýju lögin gefa til að móta þá námsleið sem er styttri en stúdentsprófið og kann að henta öðrum hópum, hugsanlega þeim sem ekki leggja í lengri leiðina (Forseti hringir.) en fá skemmra en um leið innihaldsríkt framhaldsskólapróf.