138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

höfuðstöðvar FLUG-KEF ohf.

407. mál
[14:43]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get ekkert gert að því þó að hv. þingmaður sé ekki ánægð með svar mitt. Það verður að hafa það. Það er kannski þess vegna sem við erum í tveimur ólíkum flokkum. (Gripið fram í.)

Hvar lögheimilið er hjá þessu fyrirtæki, sem starfar á höfuðborgarsvæðinu að langmestu leyti, (REÁ: Það er rangt.) skiptir að mínu mati ekki neinu máli vegna þess að það er ekki verið að flytja nein störf (REÁ: Ekki enn þá.) frá Keflavík til Reykjavíkur eða frá Reykjavík til Keflavíkur út af lögheimilinu, út af póstfanginu. Þetta er bara þvílíkt bull og vitleysa. Höfuðborgarsvæðið nær allt suður á Reykjanes, það er eitt og sama svæðið. En ef við værum að tala um, vegna þess að hv. þingmaður vitnar til ræðna minna, nýjar stofnanir og takast á um hvort þær eigi að vera á höfuðborgarsvæðinu eða úti á landi með þeirri uppbyggingu sem kæmi í framhaldinu, væri það allt annað mál. Við tökum ekki rótgróin fyrirtæki og rífum þau upp með rótum. Þetta skiptir í raun og veru engu máli vegna þess að jafnmargir starfsmenn úr Keflavík munu vinna þar eða hafa aðgang að fyrirtækinu þar og starfsmenn úr Reykjavík. Þetta snýst ekkert um það, virðulegi forseti. (Gripið fram í.)

En ég fagna því sem hv. þingmaður sagði áðan að hún gerir ekki neinar kröfur um að Reykjavíkurflugvöllur verði lagður af og innanlandsflugið verði flutt til Keflavíkur. (REÁ: Ég var ekki að tala um það, ég var að tala um …) Það finnst mér bara mjög gott mál (Gripið fram í.) að ekki sé verið að tala um það. Þá erum við alveg sammála hvað það varðar. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að innanlandsfluginu sé best fyrir komið áfram í Vatnsmýrinni, (Gripið fram í.) á Reykjavíkurflugvelli, eins og það er í dag.