138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

einkaréttur á póstþjónustu.

346. mál
[14:52]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Þannig að það sé alveg öruggt og klárt: Við viljum setja á alþjónustu allra á landinu og það eru til þess leiðir og það eru til þess tæki. Þess vegna spyr ég: Því í ósköpunum hefur hæstv. samgönguráðherra ekki unnið að þessu á undanförnum missirum og árum? Mér finnst það vera rétt sem menn tala um að síðan Sturla Böðvarsson hvarf úr stóli samgönguráðherra hafi ekkert gerst í því ráðuneyti — nema jú, loksins eftir langan tíma er farið í útboð til að tvöfalda Suðurlandsveginn. Ég óska ykkur til hamingju með það en annars gerist ekkert í þessu ráðuneyti.

Er það ekki einkennandi fyrir þessa ríkisstjórn vinstri manna, Samfylkingar og Vinstri grænna, að þegar þeir geta valið samkeppni velja þeir fákeppni? Það kemur ekkert á óvart í ljósi þess hver þróunin er núna á markaði, m.a. undir forustu ríkisbankans Landsbankans sem velur að ýta fyrirtækjum sem rétt hanga á horriminni út í samkeppni við ríkisrekið fyrirtæki. Það er hægt að tala um blómasölu. Það er hægt að tala um hugbúnaðarfyrirtæki og alls konar fyrirtæki sem núna eru með stuðningi ríkisins að fara út í harða samkeppni við þau fyrirtæki sem eru fyrir á markaði.

Það er rétt að draga fram að þetta er tilskipun frá ESB. Við munum þurfa að taka þessa tilskipun upp en núna ætlar vinstri stjórnin að fresta þessu enn og aftur af því að hún er hrædd við samkeppnina. Hún treystir ekki einstaklingum eða einkaaðilum á markaði. Það kemur auðvitað engum á óvart að hún skuli ekki treysta einkaaðilum á markaði en þetta eru sömu aðilar — ég er sannfærð um að Íslandspóstur er búinn að undirbúa sig mjög vel fyrir þessa breytingu. Því fyrirtæki stýrir fært fólk, þar vinnur gott starfsfólk og ég er sannfærð um að það er byrjað að undirbúa sig fyrir þessa breytingu og hefur gert það vel. En það eru líka aðrir aðilar á markaði sem hafa gert ráð fyrir því að afnám einkaréttar varðandi þessa póstþjónustu verði 1. janúar 2011. Þess vegna furða ég mig á því, en er um leið ekki mjög undrandi, að vinstri stjórnin er að minnka samkeppni. (Forseti hringir.) Hún kemur í veg fyrir samkeppni á þessum sviðum sem öðrum.