138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

tilfærsla verkefna frá Umhverfisstofnun til Heilbrigðiseftirlits Austurlands.

360. mál
[15:00]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir afar mikilvæga fyrirspurn varðandi tilfærslu verkefna frá Umhverfisstofnun til Heilbrigðiseftirlits Austurlands og raunar til heilbrigðiseftirlitanna yfirleitt eins og ég skildi fyrirspurn hans.

Þannig er að framsal á eftirliti fer fram samkvæmt reglugerð nr. 786/1999, um mengunarvarnaeftirlit, og síðan samkvæmt lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs. Þannig getur heilbrigðisnefnd með sérstökum samningi við Umhverfisstofnun tekið að sér að sinna að hluta eða að öllu leyti mengunarvörnum með atvinnurekstri sem Umhverfisstofnun veitir starfsleyfi fyrir. Hér er því um að ræða samkomulag milli Umhverfisstofnunar og viðkomandi heilbrigðisnefndar.

Heilbrigðisnefnd Austurlands hefur, auk annarra heilbrigðisnefnda, óskað eftir því við Umhverfisstofnun að fá samning um eftirlit með fleiri atvinnugreinum sem Umhverfisstofnun vinnur starfsleyfi fyrir en heilbrigðisnefndin hefur nú, þannig að eftirlit með tiltekinni atvinnustarfsemi verði færð frá Umhverfisstofnun til nefndarinnar á grundvelli áðurnefndrar reglugerðar um mengunarvarnaeftirlit og á grundvelli laga um meðhöndlun úrgangs. Umhverfisstofnun, sem áður var Hollustuvernd ríkisins, hefur í tímans rás framselt eftirlit með mengandi starfsemi til heilbrigðisnefnda sem þá tóku að sér að sinna eftirliti á grundvelli 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 780/1999, um mengunarvarnir, og þar áður samkvæmt þágildandi mengunarvarnareglugerðum. Frá því að samningar um framsal eftirlits voru gerðir upphaflega hafa orðið ýmsar breytingar á lögum og reglugerðum. Að mati Umhverfisstofnunar er eðlilegt að endurskoða þá samninga sem gerðir hafa verið, bæði með tilliti til breytinga sem orðið hafa á löggjöf á þessu sviði og ekki síður til að tryggja að eftirlitið sé með samræmdum hætti eins og fyrirspyrjandi nefndi í ræðu sinni. Í því skyni hefur Umhverfisstofnun sett fram tillögu um viðmið sem liggja á til grundvallar við framsal eftirlits til heilbrigðisnefnda með það að markmiði að gera framsalið markvissara, gagnsærra og samræmdara. Ráðuneytið og sú sem hér stendur telur jákvætt að færa eftirlit frá Umhverfisstofnun til heilbrigðisnefnda þegar slíkt hefur í för með sér aukna hagkvæmni í eftirliti. Það er hins vegar ljóst að vegna takmarkaðs fjölda fyrirtækja í tilteknum atvinnugreinum og flókins eftirlits með þeim er flóknara að byggja upp fullnægjandi fagþekkingu varðandi umhverfiseftirlit með starfsemi þeirra á mörgum stöðum á landinu og þarf þá að gæta betur að samræmingarhlutanum en ella.

Samtök heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi hafa hvatt ráðuneytið til að marka stefnu að því er varðar að framselja eftirlit og þvingunarúrræði til þeirra heilbrigðiseftirlitssvæða sem eftir því óska í samræmi við áðurnefndar heimildir. Í lögum um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, er skýr heimild til handa Umhverfisstofnun að fela heilbrigðisnefnd eftirlit og framkvæmd þvingunarúrræða samkvæmt lögunum í umboði stofnunarinnar. Varðandi aðra mengandi starfsemi sem Umhverfisstofnun veitir starfsleyfi í samræmi við lög nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, telur umhverfisráðuneytið að styrkja þurfi lagaheimild í reglugerð um mengunarvarnaeftirlit, m.a. með tilliti til þess að þvingunarúrræði fylgja ekki með slíku framsali að óbreyttum lögum.

Þingmaðurinn spyr: Hvenær má ætla að verði af breytingum eða því að verkefni verði flutt í ríkari mæli til heilbrigðiseftirlits í samræmi við áðurnefnd lög? Ráðuneytið hefur sl. ár skoðað með heildstæðum hætti framsal og eftirlit til heilbrigðisnefnda frá Umhverfisstofnun og telur mikilvægt að um það sé mótuð samræmd stefna. Málið hefur verið tekið upp hjá Umhverfisstofnun, framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlitssvæða og við atvinnulífið. Ítarleg umræða hefur farið fram um málið með Umhverfisstofnun og framkvæmdastjórum heilbrigðiseftirlitssvæða og ætlunin er að ræða málið við Samtök atvinnulífsins í sama skyni. Stefnt er að því að ljúka þeirri skoðun og stefnumörkun fyrir júnílok.

Ég vil ítreka ánægju mína með að þingmaðurinn skuli taka þessa umræðu upp og vænti þess að hann vilji leggjast á árar með mér í því að koma þessu mikilvæga máli áfram. Eins og hann nefndi sjálfur í framsögu sinni er líka um mikilvægt byggðamál að ræða en mikilvægast er auðvitað að við tryggjum samkvæmni, gagnsæi og það að eftirlitið sé fullnægjandi fyrir umrædda atvinnustarfsemi á hverjum stað.