138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

tilfærsla verkefna frá Umhverfisstofnun til Heilbrigðiseftirlits Austurlands.

360. mál
[15:08]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og þykir mjög jákvætt að ráðherra lýsir því yfir að hún sé mjög jákvæð fyrir því að flytja þessi störf út til heilbrigðiseftirlitsins undir þeim formerkjum að tryggja fullnægjandi eftirlit. Ég er sammála þeim áherslum og lýsi mig reiðubúinn til að vinna með hæstv. ráðherra að framgangi mála í þeim dúr. Ég fagna því líka ef vilji hæstv. ráðherra stendur til þess að ljúka þessu verki fyrir lok júní. Betra væri að þetta gæti gengið fyrr en ég skal alveg virða það ef tíminn er það naumur að ekki sé hægt að fá niðurstöðu í þetta fyrr og lýsi því yfir að við skulum vinna að framgangi þeirra mála með ráðherra.

Ég skal alveg taka undir það sem kom fram í máli hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar áðan að tilhneigingin hefur verið þessi, eins og við upplifum þetta mörg hver sem komum frá öðrum svæðum en þeim sem hér eru, að það virðist vera erfitt að ná því fram að fagleg þekking í héraði sé annaðhvort nýtt eða byggð upp þar. Staðreyndin er sú að þrátt fyrir að þetta ákvæði um framsal eftirlitsverkefna frá ríkisstofnunum til heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga hafi verið í lögum frá 1999 hefur ekki eitt einasta verkefni verið fært til heilbrigðiseftirlitsins með leyfi gildandi laga. Það hefur ekkert gengið í þeim efnum þrátt fyrir að leitað hafi verið eftir því. Oftar en ekki höfum við fengið þau svör, og ég man eftir að í fyrirspurn fyrir tveimur þingum fékk ég svör í þá veru, að það gengi ekkert að ráða fólk út á land. Aðstæður eru allt aðrar nú þannig að sú afsökun dugar ekki lengur, þótt ég hafi ekki trú á því svari sem þá kom fram.

Meginatriðið í þessum efnum er þetta: Tryggjum að við getum sinnt þessum verkefnum annars staðar en í því sem sumir kalla miðju landsins (Forseti hringir.) en eins og allir vita er nafli alheimsins á Dalvík.