138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

reglugerð um gjafsókn.

380. mál
[15:12]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég er hingað komin til að bera upp spurningar um reglugerð um gjafsókn til hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra. Gjafsókn er þegar ríkið greiðir kostnað fólks af því að bera mál fyrir dómstóla. Í lögum um meðferð einkamála kemur fram í 126. gr. að ráðherra er sá sem kveður á um hámark gjafsóknarfjárhæðar og um skilyrði gjafsóknar, þar með talið hvenær næg tilefni séu til veitingar gjafsóknar, þau atriði sem líta beri til við mat á fjárhagsstöðu umsækjanda og heimildir til takmörkunar á gjafsókn. Dómsmálaráðherra hefur því samkvæmt þessum lögum mjög mikið svigrúm til að bæði takmarka og opna fyrir gjafsókn.

Í maí 2008 ákvað þáverandi dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, að nýta sér þessar víðtæku lagaheimildir með því að breyta tekjuviðmiðum vegna gjafsóknar. Tekjuviðmið fyrir einstaklinga var 133 þús. kr. í mánaðarlaun eða fyrir hjón 208 þús. kr. Til að gera sér grein fyrir fáránleika þessa og hversu smánarlegar þessar upphæðir eru má nefna að atvinnuleysisbætur eru í dag 149.523 kr. miðað við 100% bótarétt og byrjunarlaun í lægsta þrepi hjá Starfsgreinasambandinu 151.252 kr. Hv. þm. Atli Gíslason gagnrýndi þetta þá mjög og benti á að lögum um gjafsókn hefði verið breytt árið 2005 til að koma í veg fyrir að fólk fengi gjafsókn vegna fordæmismála og með aðgerðum þáverandi dómsmálaráðherra, Björns Bjarnasonar, væri enn frekar verið að þrengja að möguleikum fólks til að koma málum fyrir dómstóla.

Öllum ætti að vera ljóst að fólk með 133 þús. kr. í mánaðarlaun getur hvorki sótt né varið mál fyrir dómi. Í grein sem ég fann í undirbúningi fyrir þessa fyrirspurn var fyrirsögnin: „Lok, lok og læs og allt í stáli, lokað fyrir Páli?“ Þetta er sérstaklega átakanlegt núna þegar fjöldi fólks hefur áhuga á að sækja rétt sinn gagnvart fjármálafyrirtækjum vegna hugsanlegs ólögmætis gengistryggðra lána. Stjórnvöld með efnahags- og viðskiptaráðherra í broddi fylkingar hafa ítrekað bent fólki á að eina leiðin til að leita réttar síns sé að fara með mál fyrir dómstóla en það kostar peninga, fjármuni sem þetta fólk á einmitt ekki vegna þessara fjármálagjörninga sem eru hugsanlega ólöglegir og vegna þess forsendubrests sem hefur orðið í íslensku efnahagslífi. Margir hafa einnig misst vinnuna og eru á atvinnuleysisbótum sem getur verið mikið áfall fyrir efnahag fjölskyldunnar. Ekkert tillit er þó tekið til þess í reglugerð dómsmálaráðherra. Því spyr ég:

Hyggst ráðherra breyta reglugerð nr. 45/2008, um skilyrði gjafsóknar og starfshætti gjafsóknarnefndar, með því að:

a. hækka tekjuviðmið, sem er nú 1.600.000 kr. fyrir einstakling og 2.500.000 kr. fyrir umsækjanda í hjúskap eða sambúð, sbr. 7. gr.,

b. veita atvinnulausum undanþágu frá tekjuákvæðum,

c. auðvelda á annan hátt og einfalda ferli við að sækja um gjafsókn? Og opna þar af leiðandi smáglufu fyrir Pál og meðaljóninn á Íslandi.